-5 C
Selfoss
Home Fréttir Ofurlaun oddvita Ásahrepps

Ofurlaun oddvita Ásahrepps

0
Ofurlaun oddvita Ásahrepps
Ágústa Guðmarsdóttir.

Undirrituð tók nýverið sæti í hreppsnefnd Ásahrepps í öðru sæti E-listans, en listakosningar voru í fyrsta sinn viðhafðar í sveitarfélaginu. Skömmu fyrir kosningar kom óvænt fram listi L-listafólks og undirritaðri fannst eðlilegt að leggja lítið lóð á vogarskál mótframboðs til þess að L-listinn yrði ekki sjálfkjörinn með tilheyrandi lýðræðishalla í okkar litla samfélagi. Ég hef aldrei áður tekið þátt í pólitísku starfi af neinu tagi. Mitt erindi í hreppsnefnd er að stuðla að velferð allra íbúa hreppsins og bjóða fram reynslu á sviði heilsueflandi samfélags.

Störf hreppsnefndar fara illa af stað og markast af valdníðslu og sérhagsmunagæslu, – hef ég kannski misskilið hlutverk fulltrúa í sveitarstjórn? Nýr samningur við oddvita Ásahrepps, Ástu Berghildi Ólafsdóttur, misbýður svo minni réttlætiskennd að mér finnst nauðsynlegt að deila henni með öðrum.

Á seinni hluta síðasta kjörtímabils hækkuðu grunnlaun sveitarstjóra í 1,1 millj. í kjölfar úrskurðar kjaradóms þar sem laun hans voru miðuð við þingfararkaup. Launin hækkuðu úr 763 þús. í 1.104 þús., eða um 44%. Fráfarandi sveitarstjóri var í 70% starfi og oddviti í 25% starfshlutfalli. Þessi laun finnst mér nógu há og alls ekki sjálfgefið að áfram verði miðað við úrskurð kjaradóms. Nú ákveður meirihluti Ásahrepps að ganga enn lengra en kjaradómur og hækka grunnviðmiðun launa sveitastjóra í 1,3 millj. og ganga frá samningi við oddvita á sömu kjörum með 45% starfshlutfall. Oddviti fær auk þess 8% af þingfararkaupi fyrir mánaðarlega setu á hreppsnefndarfundi, auk greiðslna fyrir setu á fundum í byggðasamlögum, en nær allir málaflokkar eru í samstarfi við nágrannasveitarfélög vegna smæðar hreppsins.

Samandregið lítur dæmið svona út:

  • Föst laun oddvita eru 673 þús. og því hærri en laun sveitarstjóra sem hlýtur að teljast óvenjulegt á sveitarstjórnarstigi á Íslandi. Oddviti fær auk þess greitt aukalega fyrir nefndasetu á vegum byggðasamlaga, auk greiðsla fyrir akstur og símkostnað.
  • Meðallaun oddvita á undangengnu körtímabili voru um 310 þús. Laun nýs oddvita eru hækkuð um 117% miðað við meðallaun á síðasta tímabili.
  • Viðmið fyrir grunnlaun oddvita eru hækkuð um 20% til viðbótar úrskurði kjararáðs, starfshlutfall hækkað um 20% frá 25% í 45% og eru síðan bundin vísitölu launaþróunar til að tryggja árlega hækkun hjá oddvita Ásahrepps.
  • Föst laun núverandi oddvita eru um 8,1 millj./ári, auk greiðslna fyrir setu í nefndum. Launakostnaður Ásahrepps á kjörtímabilinu verða því um 40 milljónir með launatengdum gjöldum.

Hvernig eru há laun oddvitans skýrð? Eru óvenju mikil og tímafrek verkefni framundan sem starfsfólk sveitarfélagsins á lægri launum getur annast? Á síðasta kjörtímabili var lokið við lagningu ljósleiðara um sveitarfélagið. Á seinni hluta síðasta kjörtímabils var einnig lokið umfangsmikilli vinnu við að setja öll verkefni hjá Ásahreppi nema ljósleiðarann í samstarf við önnur sveitarfélög. Þau eru því sameiginlega rekin og greitt er sérstaklega fyrir stjórnarsetu í gegnum þau verkefni. Oddviti Ásahrepps, Ásta Berghildur Ólafsdóttir, er aðal- eða varamaður í 8 samstarfsverkefnum af 13 og fær því þóknun og akstur fyrir hvern fund sem hún situr til viðbótar við föst laun, sem búið er að skýra hér ofar í greininni. Engar sambærilegar stórframkvæmdir eru á döfinni á næstunni sem Ásahreppur stendur einn að.

Undirrituð veltir fyrir sér eftirfarandi spurningum:

  • Er þetta eðlileg þóknun eða ein birtingarmynd græðgisvæðingar á Íslandi ?
  • Er 250 manna sveitarfélag of lítil stjórnsýslueining þar sem nær allir málaflokkar eru í byggðasamlögum?
  • Er eftirsóknarvert að búa í svona samfélagi ?

Að lokum L-listafólk; var þetta tilgangurinn með ykkar framboði?

Ágústa Guðmarsdóttir, Steinsholti Ásahreppi, 2. sæti á E-lista.