Þann 15. ágúst síðastliðinn var heitu vatni hleypt á endurnýjaða hitaveitulögn frá Bakka í Ölfusi að Eyrarbakkavegi, ríflega 7 km leið. Með þessari framkvæmd lýkur endurnýjun lagnarinnar frá dælustöð Veitna á Bakka til Þorlákshafnar.
Tíu ár eru liðin frá því að þeim hluta lagnarinnar sem liggur frá Eyrarbakkavegi að Þorlákshöfn var skipt út. Gamla lögnin er ofanjarðar og var orðin töluvert veðruð. Hún var lögð árið 1979 og er því tæplega fjörutíu ára gömul. Nýja hitaveitulögnin er niðurgrafin og töluvert sverari en sú gamla til að mæta aukinni heitavatnsnotkun í framtíðinni og tryggja afhendingaröryggi á svæðinu.
Þegar nýja lögnin hefur verið tekin í rekstur hefst vinna við að fjarlægja núverandi ofanjarðarlögn og undirstöður sem undir henni eru líkt og gert var þegar stofnlögnin var endurnýjuð frá Eyrarbakkavegi að Þorlákshöfn.