Margir ráku upp stór augu þegar þeir keyrðu í gegn um aðalgötuna á Eyrarbakka í gærdag 16. ágúst. Jólaskraut og snjór mættu vegfarendum sem áttu leið hjá í blíðviðrinu, en glampandi sól var í allan gærdag. Það var þó ekki svo að íbúar á Bakkanum væru farnir að þjófstarta jólunum. Gjörningurinn var runninn undan rifjum starfsmanna framleiðslufyrirtækis í auglýsingagerð. Starfsmennirnir voru sposkir á svip þegar þeir voru spurðir um hvað stæði til. Ekkert fékkst þó gefið upp um hvað stæði til. Jólaskreytingarnar og snjórinn settu þó skemmtilegan blæ á bæinn í blíðunni.