Fyrir ellefu árum flutti Ewa Jolanta Nieradko og fjölskylda hennar til Íslands frá Póllandi. Þau fluttu fyrst til Kirkjubæjarklausturs þar sem þau bjuggu í tæp tvö ár. Þegar kom að því að dóttir þeirra hjóna fór í skóla til Reykjavíkur ákváðu þau að flytja á Selfoss og hafa verið þar í níu ár.
Eftir að börnin stækkuðu fór Ewa að hafa meiri tíma á milli handanna og fór út í að gera alskyns handverk. Handverkið gerir Ewa á eigin forsendum og skapar sinn eigin listaheim og heldur fast í sín sérkenni. Hún hefur gert ýmislegt fyrir aðra, til dæmis páska- og jólaskraut.
Fjárfesti í brennsluofni 2010
Í upphafi var vann Ewa mest í gler. Hún fjárfesti í brennsluofni árið 2010 til þess geta haldið listsköpun sinni áfram. Þá gerir hún ýmsa muni úr steindu gleri til dæmis ljós og lampa. Fyrir utan húsið hennar er stórt mósaíkverk og borðplötur í garðinum eru fagurlega skreyttar mósaíkmunstri.
Það sem Ewa er að fást við þessa dagana er að gera brúður. Brúðurnar eru af ýmsum toga og alls konar lögun. Það er augljóslega mikil vinna á bakvið hverja brúðu. Ewa sýnir blaðamanni muni sem hún hefur gert og talið berst að hvort hún ætli ekki að sýna það sem hún er að gera.
„Það koma margir heim að skoða hjá mér en mér finnst vanta betri aðstöðu. Það er draumur hjá mér að opna gallerý. Svo langar mig að vera með sýningar,“ segir Ewa. Þess má geta að Ewa var með sýningu Bókasafni Árborgar í tilefni Sumars á Selfossi.
Mikilvægt að sitja ekki auðum höndum
Ewa hefur mikla ástríðu fyrir listinni sinni. Það liggur mikill tími og handavinna að baki munum sem hún gerir. Þegar hún er spurð út í þetta svarar Ewa því til að það sé mikilvægt að hafa eitthvað að gera.
„Að hafa ástríðu fyrir einhverju er mikilvægt fyrir alla. Ég hef séð marga sem koma til Íslands til bara til að vinna, fara hægt og rólega að leiðast. Það er ekki gott að vinna, borða og sofa eingöngu í langan tíma. Það verður til þess að fólk einangrast og missir áhuga á að lifa lífinu lifandi. Þess vegna er mér svo ofarlega í huga mikilvægi þess að sitja ekki auðum höndum. Það að passa upp á andlegu hliðina. Það er erfitt að flytja til annars lands og þurfa að koma sér inn í allt. Og þessvegna enn mikilvægara að koma sér af stað í eitthvað sem vekur gleði. Ég get gleymt mér tímunum saman í handverkinu mínu og það gefur mér svo mikið“.