Síðustu tvær helgar hafa verið viðburðarríkar í Þorlákshöfn. Verslunarmannahelgin var undirlögð af ungmennum á Unglingalandsmóti UMFÍ og um síðastu helgi var bæjarhátíðin Hafnardagar.
Um 8000 manns lögðu leið sína í Þorlákshöfn um verslunarmannahelgina og þar af voru rúmlega 1300 keppendur á aldrinum 11–18 ára. Yfir 20 keppnisgreinar voru í boði af ýmsum toga. Þar má nefna þessar hefðbundnu líkt og körfubolta, fótbolta og frjálsar, en einnig voru óhefðbundnari greinar líkt og kökuskreytingar, sandkastalagerð og strandhandbolti. Mótið gekk mjög vel og mikil ánægja var með mótið og aðstöðuna í Þorlákshöfn. Því má þakka góðum undirbúningi hjá unglingalandsmótsnefnd og öðrum sem komu að mótinu. En stærstu þakkirnar fá allir sjálfboðaliðarnir sem unnu á mótinu, því án þeirra hefði mótið ekki orðið að veruleika.
Strax í kjölfar Unglingalandsmótsins fór allt á fullt að gera klárt fyrir Hafnardaga. Hafnardagar voru með minna sniði í ár vegna mikils umfangs helgina áður og voru þeir hugsaðir til að þakka öllum þeim sem höfðu hjálpað til á Unglingalandsmótinu. Þeir sem komu fram voru m.a. Sóli Hólm, Jói Pé og Króli, Hreimur og Árni úr Made in Sveitin, Emmsjé Gauti og svo lokaði Stjórnin Hafnardögum með frábærum útitónleikum en öll dagskrá fór fram í skrúðgarðinum.
Samheldni bæjarbúa í Þorlákshöfn er mikil og hún skilaði sér svo sannarlega þessar tvær helgar. Það er því orð með sönnu að „Hamingjan er hér“.