Það er ættu flestir grunnskólanemendur að vera búnir að komast í gegnum eitthvað lesefni það sem af er sumri. Sumir hafa þó ekki enn opnað bók. Nú er ekki seinna vænna en að hefja lesturinn og koma sér í gott lestrarform fyrir skólabyrjun. Það er reynsla margra kennara að lestrargetu grunnskólabarna hrakar yfir sumartímann sé henni ekki sinnt. Lestur er eins og íþróttagrein eða blóm sem þarf að viðhalda til þess að halda við hámarksgetu. Sé ekkert lesið yfir sumarið getur afturför numið einum til þremur mánuðum á hverju sumri og hjá barni í 6. bekk, sem aldrei hefur lesið yfir sumartímann, getur uppsöfnuð afturför numið einu og hálfu skólaári. Sumarfrí eru vissulega nauðsynleg en góð lestrarfærni liggur til grundvallar svo mörgu og auðveldar nemendum allt nám. Það er því ákaflega mikilvægt að henni sé haldið við yfir sumartímann með spennandi bókum.
Yngstu lesararnir, eða nemendur í 1.-4. bekk, eru sérstaklega viðkvæmir fyrir sumaráhrifunum en börn sem glíma við lestrarerfiðleika, búa við litla lestrarmenningu heima fyrir eða eiga annað móðurmál en íslensku, eru einnig í áhættuhópi.
Góðu fréttirnar eru þær að rannsóknir sýna einnig að ekki reynist nauðsynlegt að lesa meira en fjórar til fimm bækur yfir sumarið til að viðhalda lestrarfærninni. Auðvitað leiðir mikill lestur til margs konar ávinnings fyrir skólagöngu og almenna velsæld nemenda. Sá ávinningur birtist í bættri lestrarfærni, miklum orðaforða, bættum lesskilningi, aukinni færni við ritun og svona mætti lengi telja. Ekki má gleyma galdrinum sem liggur í góðri bók og fær lesarann til að gleyma stund og stað, öðlast upplifun og reynslu af fyrirbærum sem eru misfjarlæg í tíma og rúmi.
Það er vert að minna á að útlán bókasafnanna, fyrir börn undir 18 ára aldri, eru ókeypis og að starfsfólk bókasafnanna er ávallt boðið og búið að aðstoða börn og foreldra við að finna og velja bækur sem falla að áhugasviði þeirra.