-4.3 C
Selfoss

Hvergerðingar á meðal ánægðustu íbúa landsins

Vinsælast

Viðhorfskönnun Capacent árið 2016 var lögð fram á fundi bæjarstjórnar Hveragerðis þann 9. febrúar sl. Í könnuninni er ánægja með þjónustu stærstu sveitarfélaga landsins könnuð. Gerður er samanburður á milli þeirra ásamt því að skoða breytingar frá fyrri mælingum.

Á fundinum bókaði bæjarstjórn m.a. þakkar til Gallup fyrir vel unna könnun og greinargott yfirlit sem hún telur að muni nýtast bæjarstjórn vel við framtíðarstefnumörkun sem miðar að því að bæta í sífellu þjónustu við bæjarbúa.

Bæjarstjórnin fagnaði einnig þeim góðu niðurstöðum sem sjást í könnuninni en ánægja bæjarbúa er meiri nú í nær öllum flokkum en síðast þegar könnunin var framkvæmd. Ennfremur segir að ánægjulegt sé að sjá að Hvergerðingar séu meðal ánægðustu íbúa landsins í flestum þjónustuþáttum og skipi sveitarfélagið sér þar í hóp efstu sveitarfélaga ítrekað. Hveragerðisbær er langt yfir meðaltali sveitarfélaga í mörgum þáttum og skipar sér í efsta sæti t.d. hvað varðar málefni eldri borgara, skipulagsmál, menningu og gæði umhverfis svo dæmi sé tekið. Um 92% aðspurðra eru mjög eða frekar ánægð með sveitarfélagið sem stað til að búa á, 7% hvorki né og einungis 1% er óánægt með sveitarfélagið sitt. Hefur hlutfall þeirra sem eru mjög ánægðir aukist ár frá ári og er það gleðilegt.

Í bókun bæjarstjórnar segir að bæjarstjórn líti á könnunina sem mikilvægt hjálpartæki þegar kemur að forgangsröðun verkefna og að hún hafi tekið tillit til upplýsinga og vísbendinga sem þar koma fram. Í ár er ljóst að ánægja með leikskóla hefur heldur dalað og má þar án vafa kenna um fjölgun barna og vöntun á dagvistunarúrræðum. Við þessu er nú verið að bregðast með byggingu nýs glæsilegs leikskóla og því vonast bæjarstjórnin til að á næsta ári muni þess sjá merki í könnun þess árs.

Hér má sjá niðurstöður Gallup: http://www.hveragerdi.is/files/589dcd00bf7d1.pdf

Nýjar fréttir