Það voru hressir krakkar sem fóru í loftköstum um hjólabrettagarðinn við Sunnulækjaskóla á Selfossi. Þar voru ýmsar þrautir, stökkpallar, prjón og einhverjir hreinlega hjóluðu afturábak. Forsprakkinn á svæðinu er Magnús Bjarki Þórlindsson. Hann er þjálfari og aðalskiðuleggjandi BMX – hjólanámskeiðisins á Selfossi. „Fyrsta námskeiðið mitt var 2015. Það var hálgfgerð tilraun til þess að kanna grundvöllinn og áhugann á þessu sporti á Selfossi. Mætingin var ótrúlega góð og þetta hefur farið stækkandi síðan og fjöldi fyrirspurna kemur ár hvert“
Markmið námskeiðisins er mjög einfalt samkvæmt Magnúsi. „Það er bara að njóta þess að vera úti að hjóla, eignast nýja vini og hafa gaman. Ég fer í grunnkennslu á ýmsum mikilvægum atriðum, en þar má nefna að kunna að framkvæma hopp á jörðinni, beita hjólinu rétt fram af köntum tildæmis, hvernig hægt sé að bakka eða hjóla aftur á bak og hvernig best sé að stökkva upp í loftið á þar til gerðum römpum“.
Stór partur af námskeiðinu fer í leiki og ýmsar keppnir eða þrautir. Tímataka, hástökk og langstökk eru keppnir sem krakkarnir eru mjög spenntir fyrir. Það er sett upp á þá vegu að allir geti verið með, óháð getu eða kjarki. Verðlaun eru veitt fyrir efstu 3. Sætin. Einnig fá allir þátttökuverðlaun í formi flottra límmiða. Það á við í hverri keppni eða þraut.
Hver dagur á námskeiðinu byrjar á hjólabrettasvæðinu hjá Sunnulæk. Það er mjög flott aðstaða sem sveitarfélagið er með þar. Við byrjum daginn á því að sameina hópinn og fá smá hita í skrokkinn á römpunum, segir Magnús áður en hann hverfur á braut með krökkunum út í spennandi daginn.