-6.1 C
Selfoss

Er nokkuð að hafa á stöng í Þjórsá?

Vinsælast

Það var á blíðviðrisdegi sem Einar Haraldson bóndi tók á móti blaðamanni á Urriðafossi við Þjórsá. Markmiðið var að forvitnast aðeins um stangveiði í ánni. Það var nánar til tekið sumarið 2016 sem tilraunaveiði hófst á stöng í Þjórsá. Þar á undan hafði sáralítið verið veitt með stöng í ánni og áin ekki talin henta í það. Fáum kom hreinlega til hugar að veiða þar. „Þetta byrjaði með því að ég fékk kunningja minn til þess að koma og skjóta sel“ segir Einar Haraldsson bóndi á Urriðafossi í Flóahreppi. „Hann spurði á móti hvort ekki mætti prófa að veiða með stöng í ánni. Ég brosti með sjálfum mér og sagði að það mætti bara prófa það. Ég átti satt að segja ekki von á því að það myndi virka. Það heppnaðist hinsvegar vel. Upp úr því fóru menn að koma hér og prófa og allir veiddu eitthvað. Fljótlega hafði samband við mig maður úr Kópavogi sem rekur fyrirtækið Iceland Outfitters. Hann fór fram á að fá ána leigða til fyrir stangveiði. Það var auðsótt mál af okkar hálfu því fiskisagan flaug víða og fljótlega voru mýmargir nýjir vinir farnir að vilja veiða í ánni“. Nú er þetta þannig að hægt er að fá aðgang að ánni í gegnum Iceland Outfitters.

Áin var tekin í leigu árið 2017 og það ár veiddust 750 fiskar. Samstarf hefur haldið áfram þetta ár og komnir eru yfir 900 fiskar á land þegar þetta er ritað. Árið 2017 tók Einar upp eitt net og leigði út tvær stangir. „Þar sem þetta gekk svo vel tók ég upp tvö net í viðbót og leigðum fjórar stangir. Þetta þýðir það að laxveiði í net hér uppi í fossi er aflögð. Ég er þó með eitt net eftir hér talsvert niðurfrá.“

Þeir laxar sem komið hafa á land þetta árið uppi við Urriðafoss hafa eingöngu komið á stöng. Leyfð veiðarfæri á stangirnar eru maðkar og fluga. Spúnn er bannaður með öllu. Það eru svo fimm fiskar á hverja stöng. Veiðitíminn fer eftir landslögum um veiði, 12 tímar á dag. „Það hefur verið þannig að þeir sem eru farnir að þekkja svæðið vel gengur ákaflega vel að ná fiski á land. Það er mjög gaman að vera veiðivörður hér því hér fara allir ánægðir og búnir að fá fisk.“

Aðspurður kveðst Einar ætla að halda áfram með þetta fyrirkomulag meðan hlutirnir ganga svona.

Nýjar fréttir