Það er margt spennandi við þróunina í rafbílum í dag. Hleðslugetan er sífellt að aukast og drægnin að verða meiri. Úrval bílategunda er einnig sífellt að aukast, hvort sem litið er til svokallaðra blendings- eða tvinnbíla eða hreinna rafbíla. Sigurður Hauksson hefur ekið á rafbíl síðan 2016 á milli Selfoss og Reykjavíkur til að sækja vinnu. Sigurður á Nissan Leaf 2016 sem er hreinn rafbíll og sér alls ekki eftir því að hafa skipt yfir. Hann er búinn að aka um 62.000 kílómetra síðan hann eignaðist bílinn og er afar ánægður með hvernig hann hefur reynst.
Hvervegna ákvaðst þú að fá þér rafbíl?
Þegar við hjónin fluttum hingað yfir sá ég í hendi mér að aksturinn yrði töluverður. Við veltum ýmsum möguleikum fyrir okkur í þessum efnum. Á endanum varð það ofan á að kaupa hreinan rafbíl og fara alla leið. Við erum með annan bíl á heimilinu sem hentar í lengri ferðalög og alltaf hægt að grípa í þann bíl. Rafmagnsbíllinn hefur fyrst og fremst verið notaður til að keyra milli Selfoss og Reykjavíkur undanfarin tvö ár, ásamt öðru snatti.
Hvernig er að ferðast á milli í rafbíl?
Ég hef bílinn í hleðslu yfir nóttina. Í honum er búnaður sem gerir mér kleyft að stilla hann þannig að hann sé búinn að hita sig áður en ég legg af stað, sem er ákaflega þægilegt. Það fyrsta sem ég nefni er að bíllinn er mjög hlóðlátur, engin gírskiptihökt eða neitt þannig. Rafmagnsbíllinn líður áfram. Þá vantar alls ekki neitt upp á kraftinn sem er mikið meira en nóg. Þrátt fyrir það mikil sparneytni að aka rafbíl. Það mætti segja að kostnaðurinn við hverja hundrað kílómetra jafngildi eins og einum líter af bensíni. Ég er að aka um 120 kílómetra fram og til baka á dag þannig að sparnaðurinn er umtalsverður. Þá er ég að miða við að hlaða heima, en það kostar aðeins meira á hraðhleðslustöðvum.
Hvaða ráðleggingar hefur þú til einhvers sem er að hugsa að kaupa rafbíl?
Fyrst og fremst er það að finna bíl sem hentar þér. Og spyrja spurninga. Hverjar eru vegalengdirnar? Get ég hlaðið í vinnunni ef ég þarf? Drægnin er afskaplega mikið atriði þegar kemur að því að ákvarða þetta. Þú þarft helst að hafa það þannig að þú getir lokað hringnum. Segjum eins og fara í vinnu, hlaða meðan þú ert þar, fara svo heim. Eða hleðslan dugi þér til að loka hringnum frá heimili og heim aftur. Það yrði mjög leiðingjarnt og tímafrekt að þurfa að stoppa á miðri leið alla daga til þess að hlaða ímynda ég mér. Auðvitað er svo hentugt einstaka sinnum að koma við og bæta á við hraðhleðslustöðvarnar þegar svo ber undir. Þess ber að gæta að það tekur mun lengri tíma að hlaða bílinn rafmagni en að taka bensín.
Hvernig er hleðsla frábrugðin því að bæta á bensíni?
Þetta atriði er mjög misumandi. Ef ég nota til dæmis snúruna á bílnum til þess að hlaða með í venjulegri innstungu, er hann alla nóttina að ná upp hleðslunni. Ég er með heimahleðslustöð frá Ísorku sem er 32 amper. Hún eykur hleðslugetuna umtalsvert og tíminn fer niður í 4 tíma í stað 11 tíma. Með þessari stöð er möguleiki að koma með lítið eftir af rafmagni heim, skjóta inn á bílinn í klukkutíma og fara svo einhvern 60 km rúnt ef maður þarf. Það gengi síður ef þú værir með hleðsluna bara í vegginn hjá þér.
Ef við tökum venjulegan dag þá tek ég bílinn úr hleðslustöðinni um morguninn heima, fer í vinnuna og hleð hann þar í snúru í vegginn, sem nær honum upp eftir ferðina á um það bil fjórum tímum meðan ég vinn. Svo kem ég heim, snatta jafnvel aðeins og set hann í hleðslu við heimkomu.
Hver er drægnin?
Hún er mismunandi eftir því hvaða stærð af geymi þú ert með.Til dæmis eins og Nissan Leaf er sífellt að auka stærð rafhlaðanna í bílnum. Þeir byrja með með 24 kílóvatta auka svo upp í 30, núna er komið 45 og mögulega 60 kílóvött á næsta ár. Svo eru umhverfisleg áhrif sem hafa áhrif á drægnina. Mín upplifun er að aksturslag, miklar brekkur og vindur eru aðal áhrifaþættirnir. Þar á eftir kemur kuldinn.