Þreyttir en sælir ferðamenn stigu út úr rútu Guðmundar Tyrfingssonar á tjaldstæði Gesthúsa á Selfossi síðastliðinn þriðjudag. Hópurinn hafði nýlokið við ferð í Landmannalaugar þar sem helstu kennileiti voru skoðuð og gengið um svæðið. Hópurinn er á vegum frönsku ferðaskrifstofunnar Thellier. Skrifstofan sérhæfir sig í ferðum fyrir húsbílaeigendur.
Í ár koma tveir hópar til Seyðisfjarðar með Norrænu á húsbílum sínum. Meðal áfangangastaða sem hægt er að ferðast til á vegum skrifstofunnar er öll Evrópulönd, Eystrasaltsríkin, Rússland og í raun um allan heim. Ísland er eitt af vinsælustu áfangastöðunum sem fyrirtækið býður uppá.
Það er mat fararstjórans Francois Lefevre að vegakerfið hér á landi sé gott og að landið sé ákaflega öruggt en það er mikilvægt í ferðum sem þessum. Það sé mikilvægur hluti af góðri upplifun ferðamannanna. Fyrirtækið hefur komið hingað til lands í 12 ár. Ferðin er byggð upp sem mánaðarlöng hringferð með mismunandi löngum stoppum á leiðinni. Til að mynda verður gist á Selfossi í tvær nætur. Töluvert er um að hópðurinn skilji bíla sína eftir og fari í dagsferðir á staði eins og Landmannalaugar og eða sæki afþreyingu sem þykir áhugaverð.
Í hópnum eru 36 ferðamenn á 18 fullbúnum húsbílum. Gert er ráð fyrir að tveir séu í hverjum bíl. Ferðirnar eru sniðnar að fólki sem komið er á eftirlaun og hætt að vinna. Ferðirnar eru ákaflega vinsælar meðal þess aldurshóps.
Aðspurður sagði Francois að fjölmargir þættir væru ástæða fyrir áhuga viðskiptavina ferðaskrifstofunnar á Íslandi sem áfangastað. Fyrst var að nefna fjölbreytileika náttúrunnar og hve frábrugðin hún er heimalandinu. „Það er áhugavert hve fjölbreytni er mikil í veðri og náttúru á Íslandi,“ segir Francois. „Saga landsins er einnig spennandi. Ríkur áhugi er meðal hópsins á sögu landsins, víkingaarfleifðinni og hvernig hún fléttast inn í samfélagið í dag.“ Francois segir að hópnum finnist áhugavert að kynnast íslenska andanum, fólkinu í landinu og hvernig þjóð Íslendingar eru, meðan hann tók kankvís eitt víkingaklapp og HÚH.
Hópurinn gaf sér stutta stund til þess að stilla sér upp fyrir ljósmyndara Dagskrárinnar. Ferðamennirnir voru óþreyjufullir að fylla inn á kortin sín afrakstur dagsins og skipuleggja sig fyrir næsta dag. Mikil gleði færðist síðan yfir hópinn þegar einn úr hópnum dró forláta púrtvínsflösku úr pússi sínu. Blaðamaður kvaddi glaðbeitta ferðamenn sem voru þreyttir, blautir og sælir eftir góðan dag í íslenskri náttúru með púrtvínstár í glasi.