Í bókinni Helguleikur segir frá semballeikaranum Helgu Ingólfsdóttur (1942–2009), Sumartónleikum í Skálholtskirkju og sögu barokktónlistar á Íslandi. Einnig er gerð grein fyrir alþjóðlegum straumum í tónlist frá 18. öld til okkar daga. Lesandinn er leiddur inn í heillandi sögu frumherja í tónlistarstarfi sem gerðu jafnvel Bach að Biskupstungnamanni.
Í bókinni er rakið hvernig semballeikarinn Helga Ingólfsdóttir breytti hugmyndum manna um barokktónlist en var jafnframt öflugur túlkandi nýrrar tónlistar enda heilluðust tónskáld af leik hennar og hljóðfæri og tileinkuðu henni verk sín.
Gerð er tilraun til að greina stefnur og strauma í nýrri íslenskri tónlist og fjallað um þá viðleitni íslenskra tónskálda að segja sögur í tónlist sinni. Getur einleiksverk fyrir sembal fjallað um hallarrústir í frumskógum Víetnams?
Bókinni fylgja sex hljómdiskar með leik Helgu.