Sunnudaginn 8. júlí kl. 15:00 gengur listamaðurinn Sigrún Harðardóttir með gestum um sýninguna HVER/GERÐI í Listasafni Árnesinga í Hveragerði og segir frá verkum sínum sem þar eru. Titill sýningarinnar býr yfir margræðni sem á vel við, þar sem hverir og gróður er viðfangssefni hennar. Heiti hennar kallast líka skemmtilega á við staðsetninguna, Hveragerði og ef spurningarmerki er bætt aftan við, þá er spurt hver gerði hvað, listamaðurinn, náttúran og gestir sýningarinnar, því tvö verkanna eru gagnvirk og gjörðir gestanna hafa þar með áhrif á það sem sjá má. Að ganga um sýninguna í fylgd listamannsins er góð leið til þess að fá svör við ýmsu sem forvtnilegt er að fá nánari upplýsingar um.
Sigrún hóf myndlistarnám sitt á Íslandi en stundaði síðan framhaldsnám bæði í Hollandi og Kanada. Hún byrjaði í grafík og málun en varð síðar meðal frumkvöðla í notkun nýmiðla í myndlistarsköpun svo sem vídeótækni og gagnvirkni. Sigrún hefur lengstum búið og starfað erlendis en er nú búsett á Íslandi. Hún dvaldi í listamannaíbúðinni í Hveragerði hluta árs 1996 og hóf þá markvisst að vinna með hveraþema.
Sýningin mun standa til og með 6. ágúst. Safnið er opið alla daga kl. 12–18. Aðgangur að safninu og á leiðsögnina er ókeypis og allir velkomnir.