-8.3 C
Selfoss
Home Fréttir Háar sektir fyrir of hraðan akstur

Háar sektir fyrir of hraðan akstur

0
Háar sektir fyrir of hraðan akstur

Þrjátíu ökumenn voru kærðir fyrir of hraðan akstur á Suðurlandi í liðinni viku. Mesti hraði sem mældist var 161 km/klst. Þar var á ferðinni, um Suðurlandsveg austan Hvolsvallar, bandarískur ríkisborgari sem situr uppi með 230 þúsund króna sekt og viðeigandi sviptingu. Íslenskur ökumaður var kærður fyrir að aka á 99 km/klst hraða á Eyravegi við bæjarmörk Selfoss, þar sem leyfður hraði er 50 km/klst. Sá fékk 100 þúsund króna sekt. Hraðakstursmálin dreifast nokkuð jafnt um umdæmið,. Níu ökumenn voru kærðir í Árnessýslu, tíu í Rangárvallasýslunni, sjö í nágrenni Kirkjubæjarklausturs og þrír við Hornafjörð.

Fjórir ökumenn voru kærðir fyrir meinta ölvun við akstur um liðna helgi. Tveir þeirra voru á Höfn.

Um miðjan dag á fimmtudag hafði lögregla afskipti af ökumanni bifreiðar sem ekið hafði á grindverk í íbúðargötu á Selfossi og síðan af vettvangi. Sá reyndist ölvaður og var sviptur ökuleyfi.

Að kvöldi miðvikudagsins hafði ökumaður á Eyrarbakkavegi verið stöðvaður og reyndist sá einnig ölvaður.

Tveir ökumenn voru kærðir fyrir að nota farsíma við akstur bifreiða sinna. Hvor um sig þarf að greiða 40 þúsund króna sekt fyrir brotið.

Skráningarnúmer voru tekin af tveimur ökutækjum sem reyndust ótryggð í umferðinni. Sekt fyrir að vanrækja að tryggja ökutæki lögboðinni ökutækjatryggingu er nú 50 þúsund krónur.

Einungis eitt umferðarslys með slysum á fólki var tilkynnt til lögreglu en árekstur varð á Suðurlandsvegi, við áningastað við Klifanda, þegar ökumaður bifreiðar hugðist aka fram úr bifreið sem beygt var til vinstri inn á áningastaðinn. Meiðsli eru talin minniháttar.

Fimm tilfelli voru tilkynnt þar sem ekið var á sauðfé við Suðurlandsveg. Þá var í tvígang tilkynnt um lausa nautgripi við vegi og í tvígang um laus hross.

Úr dagbók lögreglunnar á Suðurlandi.