Fjórir skólar í uppsveitum og Flóanum, Bláskógaskóli Laugarvatni, Bláskógaskóli Reykholti, Flóaskóli og Kerhólsskóli, tóku sig saman í vetur og buðu unglingadeildunum á þrjár Smiðjuhelgar. Þar fengu nemendur að takast á við fjölbreytt verkefni sem að þau höfðu sjálf valið og stungið uppá. Helgarnar voru haldnar í þremur af skólunum og komu alls um 70 nemendur í hvert skipti. Hópurinn hittist á föstudegi og tók þátt í smiðjum fram á miðjan dag á laugardegi.
Verkefnin voru mjög fjölbreytt, allt frá heimilisfræðismiðjum, þar sem að krásir voru töfraðar fram, yfir í hestasmiðjur og motocross. Nemendur smíðuðu sleða, bjuggu til leirmuni og skartgripi og lærðu grunnatriði bifvélavirkjunar. Farið var í siglingu á Laugarvatni og eldað undir berum himni, einhverjir lærðu bogfimi og aðrir Parkour.
Nemendur fengu þarna tækifæri til að kynnast stærri hóp ungmenna á sínum aldri sem er alltaf kærkomið. Það er óhætt að segja að það hafi gefist vel en í síðustu smiðjunni voru hóparnir farnir að blandast mjög vel t.d. þegar unga fólkið kom saman við varðeldinn og söng við gítar og harmonikkuleik. Til að efla þetta enn frekar kom Ragnar Pálmarsson í heimsókn og hélt fyrirlestur um jákvæð samskipti við upphaf síðustu smiðjunnar.
Það getur verið áskorun í litlum skólum að bjóða upp á fjölbreytt úrval valgreina og að nálgast mismunandi áhuga nemenda. Með smiðjuhelgunum er reynt að bæta úr því. Úrvalið er aukið til muna enda stærri hópur nemenda að sækja smiðjurnar. Það er líka mikið lagt upp úr því að nemendur séu sjálfir að koma með hugmyndir að verkefnum og reynt er að verða við óskum þeirra þó að þær séu ekki hefðbundin verkefni í skólunum. Þannig er t.d. hægt að bjóða upp á smiðjur í Motocross, Eldsmiðju, bogfimi, hestasmiðju eða heimsókn til sérfræðinga s.s. í eldhúsið á Efsta-Dal þar sem að nemendur bjuggu til sinn eigin ís. Hefðbundnari þættir vega einnig þungt s.s. listir ýmiskonar en hægt var að velja úr fjölbreyttu úrvali listasmiðja þar sem að sérfræðingar kenndu. Nemendur fengu t.d. handleiðslu hjá Magnúsi Kjartanssyni í tónlistarsmiðju og unnu með Hollenska listamanninum Joëlle Hoogendoorn við myndlist. Íþróttir voru einnig vinsælar og boðið var uppá nokkrar slíkar smiðjur. Meðal annars smiðjur þar sem að nemendur fengu handleiðslu frá handboltalandsliðskonunni Perlu Ruth Albertsdóttur og meistaraflokks þjálfaranum Lárusi Jónssyni í körfubolta. Frábært kennaralið skólanna myndaði svo hryggjarstykkið í verkefninu en það er einnig gaman fyrir kennara að fá að fara lengra með sínar hugmyndir og takast á við verkefni þar sem að hægt er að leyfa nemendum að vinna að afmörkuðu verkefni í 6–8 tíma í senn.
Samfélagið í kringum þessa skóla kom einnig sterkt inn og studdi við bakið á verkefninu. Margir af þeim stöðum sem að krakkarnir voru að heimsækja buðu þeim í heimsókn án endurgjalds og margir gáfu af tíma sínum til að nemendur gætu fengið sem mest út úr helgunum. Það er alveg ljóst að verkefni sem þessi verða bara betri fyrir vikið.
Verkefnið kom vel út, nemendur, kennarar og foreldrar eru á einu máli um að það hafi tekist vel og skilað góðum árangri. Stefnt er að áframhaldandi samstarfi skólanna og frekari þróun þessa verkefnis.