Nýr meirihluti Sjálfstæðismanna í Sveitarfélaginu Ölufusi hefur ákveði að auglýsa eftir nýjum bæjarstjóra. Þetta var ákveðið á fyrsta fundi nýkjörinnar sveitarstjórnar sem fram fór mánudaginn 11. júní sl.
Á fundinum var Gestur Þór Kristjánsson kjörinn forseti bæjarstjórnar Ölfuss til eins árs og Rakel Sveinsdóttir varaforseti. Nýtt bæjarráð skipa: Rakel Sveinsdóttir formaður, Steinar Lúðvíksson varaformaður og Guðmundur Oddgeirsson. Varamenn eru Grétar Ingi Erlendsson, Gestur Þór Kristjánsson og Þrúður Sigurðardóttir.
Nýi meirihlutinn lagði á fundinum fram tillögu um að auglýsa stöðu bæjarstjóra. Jafnframt að Guðni Pétursson bæjarritari yrði settur bæjarstjóri þar til ráðningu nýs bæjarstjóra er lokið. Tillagan var samþykkt samhljóða.
Jón Páll Kristófersson, úr fráfarandi meirihluta, lagði fram eftirfarandi bókun:
„Bæjarfulltrúar á O-listanum harma að nýr meirihluti í Sveitarfélaginu Ölfusi skuli ekki vilja leita til fráfarandi bæjarstjóra Gunnsteins R. Ómarssonar varðandi áframhaldandi ráðningu. Gunnsteinn hefur starfað sem bæjarstjóri sveitarfélagsins undanfarin fimm ár og á þeim tíma skilað miklu og góðu starfi í þágu íbúa sveitarfélagsins. Hann hefur tekið fullan þátt í því mikla uppbyggingarstarfi sem átt hefur sér stað á hans starfstíma hjá sveitarfélaginu og er okkar mat að eðlilegt hefði verið að hann héldi áfram að leiða það starf í samstarfi við bæjarstjórn og starfsfólk sveitarfélagsins. Bæjarfulltrúar á O-listanum vilja við þessi tímamót nota tækifærið og þakka Gunnsteini R. Ómarssyni fyrir hans störf í þágu sveitarfélagsins og óskum honum velfarnaðar í framtíðinni.
Að því sögðu samþykkjum við að staða bæjarstjóra verði auglýst formlega“.