Hvolsskóli og Sunnulækjarskóli fengu á dögunum styrki úr Sprotasjóði. Hvolsskóli fékk um 1,9 milljón kr. styrk fyrir verkefnið Geoskóli/Jarðvangsskóli sem unnið er í samstarfi við Kötlu jarðvang. Sunnulækjarskóli fékk 1,2 milljónir kr. fyrir verkefnið Þekkingarsetur: Verklag sem styður við lærdómsferli nemenda með sérþarfir.
Alls hlutu 38 verkefni styrki úr sjóðnum að þessu sinni. Heildarupphæð styrkjanna er rúmlega 54 milljónir kr. Áherslusvið styrkveitinganna nú var á verklegt nám, vellíðan og menntun fyrir alla. Alls bárust 83 umsóknir um styrki úr sjóðnum og var heildarupphæð umsóknanna rúmar 190 milljónir.
Hlutverk Sprotasjóðs er að við styðja við þróun og nýjungar í skólastarfi í leik-, grunn- og framhaldsskólum í samræmi við stefnu stjórnvalda og aðalnámskrá viðkomandi skólastiga.
„Sprotasjóður er gegnir afar mikilvægu hlutverki í þróun og nýsköpun í íslensku skólastarfi. Það er ánægjulegt að sjá hversu margar metnaðarfullar og vel útfærðar umsóknir berast frá kennurum á öllum skólastigum,“ segir Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.