Sjálfstæði listhópurinn Smyrsl hefur undanfarna mánuði verið að ferðast með sýningu sína, Samningurinn, sem þau ætla að sýna í leikhúsi Leikfélags Selfoss. Leikverkið Samningurinn er frumraun höfundar, Helga Gríms Hermannssonar, sem leikritshöfundar. Sýningin fjallar um tvær ólíkar persónur með mismunandi áform og markmið í lífinu og hagsmunaárekstra þeirra á milli, átök og áherslur í lífinu. Sviðsetning, leikstjórn, tónlist og öll umgjörð leikverksins er eftir hópinn.
Verkið var frumsýnt á Nýja Sviðinu í Borgarleikhúsinu á hátíð Ungleiks, nóvember 2017. Síðan þá hefur það verið þó nokkrum sinnum sýnt í húsnæði LHÍ en ásamt því tók hópurinn þátt í listahátíðinni FACT Festival sem haldin er í Búdapest. Fékk verkið góðar viðtökur og kom það jafnvel fram í Ungverska ríkissjónvarpinu. Leikarar í verkinu eru Jónas Alfreð Birkisson, Ragnar Pétur Jóhannsson og Selfyssingurinn Rakel Ýr Stefánsdóttir.
Sýningin verður sýnd aðeins einu sinni í Litla leikhúsinu við Sigtún fimmtudaginn 24. maí kl. 20:00. Miðasala og frekari upplýsingar á jokull95@gmail.com. Hópurinn hvetur alla Sunnlendinga til þess að mæta og semja.