Skömmu eftir hádegi í gær var björgunarlið og lögregla kallað að Silfru í Þingvallaþjóðgarði vegna meðvitundarlauss manns. Um var að ræða erlendan ferðamann sem var í 8 manna hópi undir leiðsögn leiðsögumanna við snorkl í vatninu. (Við snorkl eru notuð köfunargleraugu og loftpípa). Við komu að bakkanum, að afloknu sundinu, missti maðurinn meðvitund og var strax komið upp á bakkann þar sem leiðsögumenn hófu endurlífgun en hópurinn var með búnað til súrefnisgjafar og hjartastuðtæki með sér eins og skylt er fyrir þá sem fara með hópa í gjánna. Endurlífgun var haldið áfram þar til komið var með sjúklinginn með þyrlu LHG á sjúkrahús í Reykjavík en þar var hann úrskurðaður látinn. Dánarorsök liggur ekki fyrir. Þetta kemur fram á vefsíðu lögreglunnar.
Viðbragðsaðilum, leiðsögumönnum og samferðamönnum mannsins var boðið upp á viðrunarfundi eftir atvikið af hálfu Rauðakross Íslands og áfallateymis Heilbrigðisstofnunar Suðurlands.