E-listinn, listi Einingar í Ásahreppi, vill leggja sitt að mörkum til að Ásahreppur verði heilsueflandi samfélag. Þar verði heilsa og vellíðan allra íbúa í fyrirrúmi í stefnumótun og aðgerðum á öllum sviðum. Félagslegir áhrifaþættir eins og uppeldisskilyrði barna, menntun, tekjur, atvinnuþátttaka, mismunun og félagslegt óréttlæti hafa mikil áhrif á heilsu fólks, líðan og lífsgæði. Við sem einstaklingar og samfélag gerumst þátttakendur í verkefninu heilsueflandi samfélag.
Sveitarfélög hafa sjálf frumkvæði að því að gerast Heilsueflandi samfélag og bera þau ábyrgð á heilsueflingarstarfinu. Embætti landlæknis styður við starfið, m.a. með gagnvirku vinnusvæði á vefnum, ráðgjöf, fræðsluefni og útgáfu lýðheilsuvísa fyrir heilbrigðisumdæmi. Nú þegar hafa fimmtán sveitarfélög á landinu, þar sem búsettir eru 73% landsmanna, skrifað undir samstarfssamning við Embætti landlæknis um Heilsueflandi samfélag. Þar af eru tvö sveitarfélög á Suðurlandi þátttakendur í verkefninu. Í verkefni af þessu tagi er samvinna sveitarfélaga mikilvæg, t.d. varðandi heilsueflandi skóla, þar sem unnið er sérstaklega með m.a. geðrækt, næringu og hreyfingu.
Samfélög geta valið sér ólíkar leiðir á vegferð sinni til heilsueflingar, en m.a. mótar stjórnsýsla, einstaklingar og umhverfi samfélagið í sameiningu. Nálgunin getur verið mismunandi eftir áherslum, áhuga og markmiðum, allt eftir þörfum samfélagsins. Heilsuefling er ferli sem tekur tíma og til að starfið verði sjálfbært þarf að skipuleggja verkefnið til lengri tíma.
Mín reynsla sem sjúkraþjálfari í vinnuvernd til 25 ára, þátttaka í verkefnastjórn Landlæknisembættisins fyrir fyrsta heilsuleikskólann á Íslandi og nú sem ráðgjafi Virk á Suðurlandi síðustu 9 ár hafa sannfært mig um mikilvægi fyrirbyggjandi starfs. Heilsa og líðan skiptir öllu máli varðandi lífsgæði einstaklingsins.
Vonandi næst víðtæk samstaða um að koma á heilsueflandi samfélagi í Ásahreppi, bæði innan sveitar og við næstu nágranna, þar sem allir aldurshópar taka þátt. Undirrituð vill leggja fram krafta mína til að hrinda verkefninu í framkvæmd.
Heimildir: Vefur landlæknisembættisins og heilsueflandi.is
Ágústa Guðmarsdóttir, skipar 2. sæt á E-listanum, lista Einingar í Ásahreppi.