-10.5 C
Selfoss
Home Kosningar Flóahreppur Af atvinnu- og skipulagsmálum í Flóahreppi

Af atvinnu- og skipulagsmálum í Flóahreppi

0
Af atvinnu- og skipulagsmálum í Flóahreppi
Hrafnkell Guðnason.

Flóalistinn hefur lagt fram ítarlega stefnuskrá sem var unnin í kjölfar íbúafundar í byrjun febrúar. Á þeim fundi var farið skipulega yfir málefnin og kallað eftir skoðunum íbúa og tillögum. Þessi fundur var leiðarljós í stefnuskrárvinnu Flóalistans.

Flóalistinn hefur mótað sér stefnu í flestum málaflokkum og eru atvinnu- og skiplagsmál þar á meðal. Á sviði atvinnumála eru mörg tækifæri í Flóanum og samfélaginu er mikilvægt er að hér vaxi og dafni öflug fyrirtæki. Nóg er af sprotum og þeim þarf að hlúa að, til dæmis með því að tengja saman í klasa eða samstarf aðila í nýsköpun sem eru farnir að stað, eða vilja fara af stað með rekstur.

Með því að skapa vettvang til að koma saman, tengjast, skiptast á þekkingu og deila reynslu myndast umhverfi sem stuðlar að nýsköpun og skapar tækifæri. Mikilvægt er að læra af reynslu þeirra sem hafa byggt upp glæsileg fyrirtæki í sveitinni sem eru nokkur. Það er draumur margra í dreifbýlinu að geta skapað sér atvinnu heima fyrir og mörgum bændum er nauðsynlegt að afla viðbótar tekna með búskap. Allt sem hægt er að gera til að styðja nýsköpun gerir Flóahrepp að eftirsóknarverðari stað til að búa á og eykur tekjur til lengri tíma.

Tækniframfarir og fjórða iðnbyltingin skapar tækifæri sem við verðum að sameinast um að greina og grípa. Lagning ljósleiðara sem verður að veruleika á næstu mánuðum er mikilvæg til að fylgja þessari þróun og skapa tækifæri á þessu sviði.

Í Flóanum sem víðar skortur er á leiguhúsnæði og erfitt fyrir ungt fólk sem áhuga hefur að setjast að í sveitarfélaginu. Á stefnuskrá Flóalistans er að breyta skipulaginu í Þingborg og gera ráð fyrir nokkrum rað- og parhúsalóðum sem yrðu svo boðnar áhugasömum framkvæmdaaðilum til að bygginga, með sölu eða leigu í huga. Skoða mætti hvort sveitarfélagið eignaðist íbúðir þarna til að geta uppfyllt skyldur sínar varðandi félagslegt húsnæði.

Að baki Flóalistans er fjölbreyttur hópur með ólíkan bakgrunn, reynslu og þekkingu. Við erum til þjónustu reiðubúin að gera sveitina okkar betri.

 

Hrafnkell Guðnason, viðskiptafræðingur, skipar 2. sæti á Flóalistanum