-6.6 C
Selfoss
Home Kosningar Bláskógabyggð Nokkur orð í belg um Bláskógabyggð

Nokkur orð í belg um Bláskógabyggð

0
Nokkur orð í belg um Bláskógabyggð
Snæbjörn Þorkelsson.

Það eru nú sextán ár að verða síðan sveitarfélagið Bláskógabyggð varð til, sem er í raun skammur tími þótt að mikið vatn hafi síðan runnið til sjávar um okkar sunnlensku laxafóstrur. Samfélagið í uppsveitunum er að taka breytingum og með því verða störf sveitarstjórna æ fjölbreyttari og vandasamari. Það var lítið gaman að vera í hreppsnefndinni eftir að „traffík og konkúrrensi“ fór að grafa um sig í héraðinu sagði Ólafur á Hrísbrú í Innansveitarkróníku Halldórs Laxness. Af þessum sökum er þakkarvert þegar nýtt fólk er tilbúið að gefa sig að trúnaðarstörfum í sveitarstjórn. Það varðar okkur nefnilega miklu hvernig á sveitarstjórnarmálum er haldið.

Það eru þrír byggðarkjarnar í sveitarfélaginu. Þar ber fyrst að nefna Reykholt, sem hefur blómstrað á undanförnum árum, auk Laugaráss og Laugarvatns, þar sem á hinn bóginn hefur gætt kyrrstöðu eða jafnvel hnignunar, íbúum fækkað og lítið er um framkvæmdir eða nýbyggingar. Ég þekki vel til á Laugarvatni og tel að sveitarstjórn hefði mátt halda betur þar á spilum. Áhugi sýndi sig á uppbyggingu en byggingarlóðir voru staðsettar í mýri neðan Menntaskólans, þar sem heilir átta metrar reyndust niður á fast og kostnaðarsamt eftir því að byggja. Þetta varð til þess að ekkert varð af framkvæmdum en ekki hjálpaði heldur að lóðargjöldum var haldið í hærri kantinum. Lítill áhugi virtist á því að kanna aðrar leiðir. Í raun er ekkert byggingarhæft land í boði á staðnum sem er mjög miður og hamlar framþróun.

Þessir staðir, Laugarvatn sem og Laugarás, þorpið í skóginum, hafa upp á margt að bjóða fyrir þá sem vilja setjast að í samfélaginu okkar. Þörf virðist á því að skoða vel hvað gera megi betur. Er ekki kominn tími á að leita nýrra lausna? Fá nýtt fólk að sveitarstjórninni? Ég kýs X-N. Nýtt afl í Bláskógabyggð.

 

Snæbjörn Þorkelsson, bóndi og verktaki, Austurey 2.