1.7 C
Selfoss
Home Fréttir Til móts við leigjendur

Til móts við leigjendur

0
Til móts við leigjendur
Þrúður Sigurðar.

Uppgangur í sveitarfélaginu hefur ekki farið fram hjá neinum. Við eigum leik- og grunnskóla í fremstu röð, aðbúnaður eldri borgara hefur verið bættur og enn er gefið í því nú liggja nú fyrir teikningar að viðbyggingu þjónustuíbúða við 9una og samningur við Bjarg íbúðafélag um byggingu leiguhúsnæðis.

Í upphafi kjörtímabilsins sem nú er að ljúka var nægt framboð af leiguhúsnæði, auð og yfirgefin hús voru nær 60 talsins og tilbúnar lóðir stóðu í röðum í „nýja hverfinu“. Með samstilltu átaki bæjarstjórnar, bæjarstjóra, starfsmanna sveitarfélagsins og íbúa við að skapa jákvæða ímynd af sveitarfélaginu tókst að snúa vörn í sókn og eru flestar eignir í bænum og
lóðir í Búðahverfi seldar.

En hvað gerðist samhliða þeirri þróun að hús og lóðir seldust eins og heitar lummur? Leigumarkaðurinn hvarf næstum og leiguverð hækkaði, skyndilega stóðum við frammi fyrir því að héðan neyddist fólk til að flytja. Íbúar sem höfðu fest hér rætur en áttu ekki kost á að kaupa húsnæði. Það er ekki góð staða og því var hafist handa við að finna leiðir til að auka framboð leiguhúsnæðis.

Ný örugg búsetuúrræði án hagnaðarsjónarmiða
Ein af leiðunum sem fundin var og samþykkt var samhljóða í bæjarstjórn var að veita Bjargi íbúðafélagi stofnframlag til byggingar leiguíbúða í Þorlákshöfn m.t.v. í lög nr. 50/2016 um íbúðir. Á heimasíðu þeirra kemur eftirfarandi fram: „Bjarg íbúðafélag er húsnæðissjálfseignarstofnun stofnuð af ASÍ og BSRB. Félagið er rekið án hagnaðarmarkmiða og er ætlað að tryggja tekjulágum fjölskyldum á vinnumarkaði aðgengi að hagkvæmu, öruggu og vönduðu íbúðarhúsnæði í langtímaleigu. Um er að ræða svokölluð leiguheimili að danskri fyrirmynd ..Almene boliger”. Leiðarljós félagsins er að byggja vel
hannað, hagkvæmt og endingargott leiguhúsnæði.“

Í fjárhagsáætlun er gert ráð fyrir því að stofnframlagið sé 37 m.kr. En u.þ.b. 40% stofnframlagsins er í formi lóðar en 60% í formi fjárframlags. Ríkið veitir einnig stofnframlag til verkefnisins í gegnum Íbúðalánasjóð. Stefnt er að því að framkvæmdir hefjist innan skamms og íbúðirnar verði tilbúnar til leigu að vori 2019.

Þetta er auðvitað ekkert annað en snilld og kemur á stöðugum leigumarkaði sem ekki er til staðar í dag og til móts við þann hóp íbúa sem á í mestum vandræðum með öruggt húsnæði.
Þá er einnig hafin vinna við deiliskipulag á nýjum götum við Norðurbyggð þar sem áhersla er á smærri íbúðir í par- og raðhúsum. Þá var skipulagi í Búðahverfi breytt til að fjölga smærri íbúðum. Það er nefnilega mikilvægt að skapa aðstæður fyrir ALLA aldurshópa til að búa hér og þá vinnu höfum við þegar hafið.

Þrúður Sigurðar skipar 2. sæti á lista Framfarasinna og félagshyggjufólks í Ölfusi, XO.