Eitt af stefnumálum Samfylkingarinnar í Árborg er að stuðla að nýsköpun og frumkvöðlastarfi innan sveitarfélagsins.
Það hefur löngum verið haft á orði að Suðurlandið sé láglaunasvæði. Staðreyndin er að langflest þau störf sem orðið hafa til í þessum landshluta, og þá ekki síst í Árborg, eru störf í verslun og ferðaþjónustu og þar eru laun með því lægsta sem gerist á almennum vinnumarkaði. Þær atvinnugreinar sem greiða bestu launin eru ekki að leita hófanna hér og má spyrja sig afhverju það er. Flestir aðrir landshlutar virðast frekar koma til greina, samanber uppbyggingu gagnavera á landsbyggðinni.
Það er einsýnt að við þessu þarf að bregðast sem fyrst og eðlilegasta leiðin er að reyna að hækka laun. Það verður best gert með því að bjóða upp á gott umhverfi fyrir til dæmis tæknifyrirtæki og fyrirtæki í vistvænum iðnaði, hugsanlega í frekari fullvinnslu matvæla eða fyrirtæki í útflutningi ýmiskonar.
Núverandi meirihluti lagði niður atvinnumálanefnd í þeirri mynd sem hún var og setti atvinnumálin undir Framkvæmda- og veitusvið. Alröng ákvörðun að mínu mati því ef eitthvað er sveitarfélaginu mikilvægt þá er það að halda vel utan um atvinnulífið og sífellt vera á höttunum eftir góðum fyrirtækjum sem oft vilja leita af höfuðborgarsvæðinu og komast í betra umhverfi. Þetta umhverfi getum við skapað og markmiðið á að vera að hífa upp laun, íbúum og sveitasjóðnum til hagsbóta. Að halda utan um atvinnumálin er full vinna og á ekki að vinnast svona aukreitis með öðru.
Samfylkingin hyggst endurvekja Atvinnumálanefnd og gefa henni skýrt hlutverk og skýr markmið í stjórnsýslunni. Ásamt því að endurskoða útboð og útvistun starfa, sem hvorutveggja heldur niðri launum starfa er það trú okkar að hægt sé að koma okkur undan þessu leiða orðspori að vera „láglaunasvæði“ Við höfum allt til að bera til að standa jafnfætis öðrum sveitarfélögum og íbúar eiga ekki að þurfa að sætta sig við að vera í hópi lægst launuðu íbúa landsins.
Við þurfum að breyta hugsunarhætti okkar og vera ófeimin við að bjóða sveitarfélagið okkar til fleiri fyrirtækja en þeirra sem selja útlendingum þjónustu og skilja lítið eftir handa okkur. Við eigum að hafa meiri metnað en svo.
Hjalti Tómasson, skipar 5. sæti á lista Samfylkingarinnar í Árborg.