Á síðustu árum hafa ýmsir fræðimenn og frumkvöðlar mótað nýja hugmyndfræði og leiðir til þess að mæta sem best þörfum einstaklinga á hjúkrunarheimilum. Einn þessara fræðimanna var dr. William Thomas, læknir á bandarísku hjúkrunarheimili. Eftir að hafa rannsakað líðan fólks á hjúkrunarheimilum, komst hann að þeirri niðurstöðu að einmanaleiki, leiði og vanmáttarkennd voru oft meginástæður vanlíðunar hjá íbúum. Út frá þeirri vitneskju þróaði hann hugmyndafræði sem miðaði að því að draga úr þessum einkennum hjá íbúum og stuðla að því að þeir nytu sem best hins daglega lífs.
Megináherslur Eden hugmyndafræðinar eru að íbúar haldi sjálfræði sínu og virðingu í sínu daglega lífi. Áhersla er lögð á að starfsfólk þekki siði og venjur íbúans áður en hann flytur á hjúkrunarheimilið og að íbúinn fái tækifæri til þess að viðhalda þeim eins og mögulegt er. Á þennan hátt er litið á hjúkrunarheimilið sem heimili þeirra einstaklinga sem þar búa en ekki sem stofnun.
Hjúkrunarheimilið Fossheimar og Ljósheimar hafa undanfarin ár lagt áherslu á hugmyndfræði Edenstefnunnar í sinni starfsemi. Það hefur verið gert með reglulegri fræðslu til starfsfólks hjúkrunarheimilanna og var meðal annars fengin aðstoð frá Eden samtökum á Íslandi sem héldu þriggja daga námskeið fyrir allt starfsfólk nú í haust.
Á Fossheimum og Ljósheimum er lögð áhersla á lítil og heimilisleg rými fyrir íbúanna þar sem reynt er að hafa umhverfið eins rólegt og notalegt og kostur er. Hver íbúi hefur sitt persónulega rými, sína persónulegu muni á sínu herbergi og eigin bað- og salernisaðstöðu. Mikil áhersla er lögð á virðingu fyrir persónu hvers einstaklings og lífsögu hans. Markmiðið er einnig að krydda hversdaginn með ýmiskonar viðburðum, stórum og smáum þar sem allir eru þátttakendur, bæði starfsmenn og íbúar. Börn, dýr og plöntur eru þekktar hjalparhellur í Eden hugmyndafræðinni vegna áhrifa þeirra á andlega líðan. Við fáum reglulega börn í heimsókn til okkar auk þess sem gott samstarf er við unglingadeild tónlistarskóla Suðurlands og Fjölbrautaskóla Suðurlands. Lifandi plöntur eru víða á hjúkrunarheimilinu og einnig fiskabúr sem nýtur mikillar hylli.
Eden hugmyndafræðin er daglegt ferðalag sem stöðugt verður að hlúa að. Það gerum við með því að vera meðvituð um störf okkar og samskipti hverja stund.
F.h. heilbrigðisstofnunar Suðurlands
Guðlaug Einarsdóttir, deildarstjóri Foss- og Ljósheima,
Sólveig Hrönn Gunnarsdóttir, aðstoðardeildarstjóri Foss- og Ljósheima.