-10.3 C
Selfoss
Home Kosningar Bláskógabyggð 111 árum síðar

111 árum síðar

0
111 árum síðar
Kolbeinn Sveinbjörnsson.

Oft gerast góðir hlutir hægt og stundum mjög hægt. Dropinn holar þó steininn og reyndar vegina í leiðinni. Margt af því sem ég hef hug á að vinna áfram með góðu fólki á næsta kjörtímabili, verði ég til þess kjörinn, tengist málum sem þegar er komin hreyfing á og breytingar í vændum. Má þar t.d. nefna ljósleiðara-, veitu-, vega-, sorp-, deiliskipulags-, byggingarlóða- og ferðamál.

Árið 1907 kom hér erlendur ferðamaður, Friðrik VIII. Danakonungur sem skellti sér Gullna hringinn. Á þess tíma mælikvarða og við aðrar konungskomur á árunum 1874–1930 var bullandi metnaður í uppbyggingu innviða. Lagðir vagnfærir vegir, WC á Mosfellsheiði, sæluhús á áningarstöðum og fleira sem tók verulegt pláss í fjárhagsáætlunum yfirvalda.

Í gestgjafahlutverkinu er það skoðun mín að sveitarfélagið verði að ganga lengra í upplýsingagjöf, hreinlæti, landvörslu, aðstöðusköpun og stjórnun gesta okkar þannig að allir séu kátir, ekki síst íbúarnir. Þarna á ég m.a. við þann stóra ferðamannastað þjóðvegina og umhverfi þeirra. Nýafstaðin breyting á lögreglusamþykkt sveitarfélaga á Suðurlandi, sem tók sinn tíma, er eitt skref í að gera frekari afskipti möguleg.

Af konungunum er það annars helst að segja að á ferð þeirra gegnum Bláskógabyggð fíluðu þeir það ekki síður vel að sitja íslenska hesta og eta heimilismat beint frá býli en að sitja í fínum vögnum og snæða þann forframaða mat sem dröslað var á eftir þeim til landsins með tilheyrandi fyrirhöfn og ósjálfbærni. Grunnþarfir fólks hafa að mörgu leyti lítið breyst; góður matur, WC og komast í snertingu við landið og landann – og reyndar líka á Netið.

Sveitarfélagið Bláskógabyggð er landmikið og til þess að gera flókið í rekstri og samsetningu miðað við fjölda íbúa – og oft er línan fín þegar ákvarðanir eru teknar. T-listinn er til í tuskið.

 

Kolbeinn Sveinbjörnsson skipar 3. sæti T-lista í Bláskógabyggð.