L-listi framboð óháðra í Rangárþingi eystra telur marga möguleika fyrir hendi til að bæta rekstur sveitarfélagsins, en við sjáum sóknarfæri í fagráðningu sveitarstjóra, vandaðri fjármálastjórn og faglegri stjórnsýslu.
Sveitarstjóri er framkvæmdastjóri sveitarfélagsins
Rangárþing eystra er stór rekstrareining og rekur nokkrar stofnanir og þjónustuveitur sem hafa ólík viðfangsefni. Slíkt fyrirtæki þarf öflugan framkvæmdastjóra, sem sér um fjármál, starfsmannamál og skipulag. Sem framkvæmdastjóri ber sveitarstjórinn ábyrgð á daglegum rekstri sveitarfélagsins en pólitískar ákvarðanir eru í höndum sveitarstjórnar. Síðan hefur hver stofnun eða deild sveitarfélagsins sinn faglega stjórnanda, sem ber ábyrgð á sínu sviði og sér um rekstur þess innan þess fjárhagslega ramma sem sett er með fjárhagsáætlun. Þannig verður fjárhagsáætlunin að öflugu stjórnunartæki.
Fjárhágsáætlun þarf að vera lifandi skjal
Fjárhagsáætluninni er ætlað að halda utan um áætluð útgjöld í takt við innkomnar tekjur. Það er afar mikilvægt að fjárhagsáætlun sé vandlega unnin og sem réttust. Mikilvægt er að gera breytingar á áætluninni þegar nýjar ákvarðanir eru teknar eða óvæntar breytingar á tekjum eða gjöldum koma upp. Reglulega þarf að bera saman áætlun og raunstöðu og uppfæra fjárhagsáætlun. Þannig er hægt að gera sér tímanlega grein fyrir þörf eða svigrúm fyrir breytingar á útgjaldaliðum.
L-listinn framboð óháðra vill beita sér fyrir vandaðri stjórnsýslu
Í því felast skýr valdamörk og ábyrgðarsvið, fagleg vinnubrögð, málefnanleg ákvarðanataka án tillits til persónulegra hagsmuna og gegnsæi í ákvarðanatöku. Fylgja þarf almennum reglum um útboð og framkvæmdir. Þannig tryggjum við jafnræði og réttlæti fyrir íbúa og þjónustuaðila. Skerpa þarf á hlutverkum starfsmanna sveitarfélagsins og tryggja að verkefni séu í réttum höndum. Rangárþing eystar er öflugt sveitarfélag þar sem margt ungt fólk hefur flutt aftur heim. Þetta fólk vill að línur séu skýrar og farið eftir leikreglum.
Christiane L. Bahner, skipar 1. sæti L-lista í Rangárþingi eystra.
Anna Runólfsdóttir, skipar 3. sæti L-lista í Rangárþingi eystra.