-8.1 C
Selfoss
Home Fastir liðir Hannyrðahornið Létt vetrarpeysa

Létt vetrarpeysa

0
Létt vetrarpeysa

Nú er vetur konungur aðeins farinn að láta sjá sig og ekki seinna vænna að athuga hvort krakkarnir eigi þægilegar ullar­peysur til að mæta kuldanum sem vetri fylgir. Í dag birtum við einfalda uppskrift af peysu fyrir 12 ára. Peysan er fljótprjónuð og auðvelt er að stækka hana eða minnka eftir stærð barns.

Peysan er prjónuð úr Ofelia, nýju garni hjá okkur sem fæst í 5 skemmtilegum litum. Það er einstaklega skemmtilegt úr 86% ull, 10% acryl og 4% nylon en sú blanda gerir garnið létt og loftkennt en um leið hlýtt. Peysan er prjónuð á grófa prjóna og fljótunnin. Kragann má bretta upp ef þörf er á og ætti flíkin því að nýtast vel.

Efni; 5 dk Ofelia, 60 sm prjónar no 6 og 7, ermaprjónar no 6 og 7, prjónamerki og prjónanælur.

Uppskrift:
Bolur: Fitjið upp 100 l á prjóna no 6 og prjónið 4 umferðir 1 sl, 1 br. Skiptið yfir á prjóna no 7 og prjónið slétt þar til bolurinn mælist 35 sm. Setjið þá fyrstu 6 l umferðar á nælu, prjónið 44 l sléttar, setjið næstu 6 l á nælu og prjónið að næstu nælu. Geymið bolinn.

Ermar: Fitjið upp 28 l á prjón no 6 og prjónið 3 umferðir 1 sl, 1 br. Skiptið yfir á prjóna no 7 og prjónið slétt prjón. Notið prjónamerki til að merkja upphaf umferðar og á 6 umferða fresti er aukið út um 2 l  önnur framan við síðustu l umferðar og hin eftir 1 l umferðar. Prjónið slétt með útaukningu þar til alls eru 46 l á prjóninum. Prjónið áfram þar til ermin mælist 41 sm. Setjið 3 síðustu l umferðar og 3 fyrstu l á nælu og prjónið aðra ermi eins.

Axlastykki: Sameinið nú bol og ermar með sléttu prjóni (168 l á prjóninum). Prjónið 6 umferðir sléttar. Í næstu umferð eru 7. og 8. l prjónaðar sléttar saman út umferðina (147 l á prjóninum). Prjónið 5 umf sléttar og á næstu umferð eru 6. og 7. l prjónaðar sléttar saman út umferðina (125 l á prjóninum). Prjónið nú 4 umf sléttar og í næstu umferð eru 5. og 6. l prjónaðar sléttar saman út umferðina.
Prjónið nú 1 umf slétta en í næstu umferð eru 5 l á miðju framstykki settar á nælu fyrir hálsmál og eftir það er stykkið prjónað fram og til baka, slétt á réttunni og brugðið til baka. Í 4. umferð (slétt umferð) er 2 l prjónaðar saman sínar hvoru megin af við hálsmálið um leið eru 4. og 5. l eru prjónaðar sléttar saman út umferðina. Affellingin við hálsmálið heldur áfram í 4. hverri umferð upp allt stykkið.
Prjónið 3 umferðir og í 4. umferð eru 3. og 4. l prjónaðar sléttar saman út umferðina. Næst eru prjónaðar 2 umferðir og í næstu umferð eru 2. og 3. l prjónaðar sléttar saman. Prjónið 1 umferð og svo eru 1. og 2. l prjónaðar sléttar saman.
Skiptið yfir á prjón no 6 og tínið upp 14 l meðfram hálsmáli. Prjónið til baka 1 sl, 1 br líka yfir lykkjurnar á bakstykki og takið svo upp 14 l meðfram hálsmáli hinum megin. Mælt er með að horfa á réttuna þegar lykkjurnar eru teknar upp svo að kanturinn verði fallegur. Prjónið áfram 1 sl, 1 br alls 20 umferðir. Fellið laust af með prjóni no 7.
Kraginn er brotinn snyrtilega í tvennt og festur niður við lykkjurnar sem geymdar voru á nælunni, gott er að festa aðeins aðra hliðina í einu þannig að hann liggi fallega. Gangið frá endum og skolið flíkina úr volgu vatni.

Það styttist í áramót og við viljum þakka trygg­um lesendum og viðskiptavinum sam­skiptin á árinu og hlökkum til nýs prjónaárs, ársins 2017 sem vonandi verður ykkur öllum viðburðafullt og heillaríkt.

Uppskrift: Þóra Þórarinsdóttir