-5 C
Selfoss
Home Kosningar Bláskógabyggð T-listi í Bláskógabyggð vill standa í stafni til framtíðar

T-listi í Bláskógabyggð vill standa í stafni til framtíðar

0
T-listi í Bláskógabyggð vill standa í stafni til framtíðar
Valgerður Sævarsdóttir.

Framtíðin er okkar, og þegar framtíðargrunnur er lagður þarf að huga að mörgu. Auðvitað þarf fyrst og fremst að horfa til þess hvernig við viljum að framtíðin heilsi okkur, hugmyndir þurfa að fæðast, þær þarf að ígrunda og koma svo í verk. Til þess þurfum við verkfæri.

Á kjörtímabilinu sem nú er að líða hafa margar hugmyndir okkar annað hvort orðið að veruleika hér í Bláskógabyggð, eða eru í markvissu vinnsluferli. Verkfærin okkar eru m.a. stefnumótanir. Unnið er að stefnumótun hvað varðar umhverfismál. Fyrst í stað var hugmyndin að koma þar inn nokkrum þáttum, en þegar á vinnuna leið kom í ljós að sorpmálin voru svo stór og kostnaðarsamur þáttur að farsælast þótti að byrja á að beina augum fyrst að þeim. Ljóst er að auka þarf flokkun á úrgangi – og ekki síst að finna leiðir til að vinna úr lífrænum úrgangi á heimaslóðum í stað þess að keyra hann langar leiðir til förgunar, sem er bæði dýrt og alls ekki umhverfisvænt.

Síðastliðið vor skrifaði Bláskógabyggð undir samning við Embætti landlæknis um Heilsueflandi samfélag. Það verkefni er einnig í stefnumótunarvinnu og þegar henni verður lokið mun lýðheilsustefna verða höfð að leiðarljósi í öllum aðgerðum hjá sveitarfélaginu.

Nauðsynlegt er að þessum tveim mikilvægu stefnumótunum sveitarfélagsins verði lokið, þannig að þær virki sem verkfærin sem þeim er ætlað að vera.

Í vetur sem leið leit Ungmennaráð Bláskógabyggðar dagsins ljós. Skipað efnilegu ungu fólki, sem hefur sterka sýn á hvernig sveitarfélagi það vill búa í. Á komandi kjörtímabili þarf að fela Ungmennaráði verkefni, og gefa ráðinu tækifæri til að styrkjast í sessi, eflast og dafna. Því þá höfum við enn eitt sterkt stefnumarkandi stjórntæki, sem eru hugmyndir unga fólksins að framtíðinni.

T-listinn hefur alltaf viljað enduróma raddir samfélagsins, skoðanir og framtíðarsýn allra. Því viljum við fá fleiri hópa að borðinu til að marka stefnu. Við viljum að Öldungaráð Bláskógabyggðar verði stofnað. Fá til liðs við okkur fulltrúa eldri kynslóðar sveitarinnar til að læra hvernig sá hópur vill sjá framtíðina í sveitarfélaginu.

Hér er fátt eitt sagt um framtíðina í Bláskógabyggð, eitt er víst að hún er okkar og sá öflugi hópur sem stendur að framboði T-lista vill standa í stafni.

 

Valgerður Sævarsdóttir, skipar 2. sæti á T-lista í Bláskógabyggð.