-9.2 C
Selfoss
Home Fréttir Þetta er mín frumraun

Þetta er mín frumraun

0
Þetta er mín frumraun
Hjalti Tómasson.

Þetta er frumraun mín á pólitíska sviðinu og því ekki fráleitt að taka smá pláss milli greindarlegra greinaskrifa annarra frambjóðenda og kynna sjálfan mig og hvar áherslur mínar liggja.

Ég er borinn og barnfæddur Selfyssingur sem á ættir að rekja norður á Langanes annarsvegar og Fljótshlíðina hinsvegar. Ég er 55 ára gamall, fjögurra barna faðir og hef unnið ýmislegt til sjávar og sveita gegnum tíðina en síðustu 8 ár fyrir stéttarfélögin á Suðurlandi. Ég hef einlægann áhuga á verkalýðsmálum og flestu sem viðkemur mannlegu eðli, ekki síst þegar kemur að samskiptum á vinnumarkaði.

Sveitarfélagið er einn stærsti launagreiðandinn á svæðinu og með ákvörðunum sínum geta bæjaryfirvöld haft mikil áhrif á afkomu og lífsgæði íbúa. Ég tel til dæmis að bæjarfélagið geti haft töluverð áhrif á þróun launa í nærsamfélaginu, til dæmis með að neita að taka þátt í að reka láglaunastefnu, viðhafa mikla varfærni í útvistunum á störfum, reka skýra og ábyrga atvinnustefnu og stuðla ekki að undirboðum á vinnumarkaði með óábyrgri útboðsstefnu.

Þegar öllu er á botninn hvolft þá er það fyrst og fremst afkoman sem skiptir okkur öll máli. Að hafa góða og stöðuga atvinnu skiptir flesta, ef ekki alla höfuðmáli, og eru grunnurinn að því samfélagi sem við lifum í. Að sönnu eru ýmsir þættir sem sveitarfélagið getur ekki haft bein áhrif á svo sem þróun verðlags og ýmsar ákvarðanir stjórnvalda sem hafa áhrif á lífsafkomuna en með ákvörðunum sínum og ábyrgri fjármálastjórn, auk fleiri þátta sem snúa að daglegu lífi og velferð bæjarbúa, þá er það trú mín að hér sé hægt að skapa samfélag sem ekki er jafnháð hinum pólitísku sveiflum í landspólitíkinni og nú er raunin.

Auk þeirra þátta sem ég nefndi fyrr þá ætti bæjarstjórn, í samvinnu við ýmsa hagsmunaaðila innan sveitarfélagsins, að hafa frumkvæði að því að sækja hingað verðmætari störf, efla skólastarf, jafnvel sérhæfa nám frekar, marka sér stefnu í ferðþjónustu með áherslu á gæði fremur en magn, gera sér skýr markmið í land- og lóðanýtingu, leggja aukna áherslu á umhverfismál og fleira mætti til telja.

 

Hjalti Tómasson, Samfylkingunni í Árborg.