Valgeir Guðjónsson hefur samið fjölda af gullfallegum og grípandi lögum um íslenska fugla við kvæði Jóhannesar úr Kötlum. Um það leyti sem hann og Ásta Kristrún, kona hans, fluttu úr borginni á Eyrarbakka tók hann fuglalögin upp með dóttur sinni og út kom geisladiskurinn Fuglakantata.
„Á Flóaríveríunni opnuðust gáttir í allar áttir þar sem fuglar voru í öndvegi enda Fuglafriðlandið í Flóa allt um kring,“ segir Ásta Kristrún, kona Valgeirs.
„Fuglar eru einstakar verur og á tónleikunum gefst gestum tækifæri til að læra örlítið um líf þeirra og kúnstir. Líf fugla höfðar til allra aldurshópa enda eru þeir um margt mannlegir í hegðun. Þannig er upplagt að tengja kynslóðir saman með tónlist og fuglum á skemmtun sem þessari, nú þegar vorið er komið og sumarið handan við hornið.“
Ásta leggur áherslu á að Eggjaskúrinn við Byggðasafnið vestan við Húsið sé til vitnis um að fuglaskoðun og náttúruvísindi vógu líka þungt á Eyrarbakka fyrir tveimur öldum síðan. „Snemmbær náttúruvísindi voru iðkuð hér og afraksturinn færður Náttúrugripasafns Íslands að gjöf.“
Hún segir að á blómaskeiði Eyrarbakka hafi líka gerst fleiri undur og stórmerki. Hvort sem það varðar joð sem unnið var úr þangi í lækingaskyni eða það að elsti barnaskóli landsins var stofnaður á þessum stað. Ásta bætir við að margt mætti telja markvert tengt náttúrufræði frá fyrri tíð svo sem merkt steinasafn fólksins í Húsinu. Það hafi verið gefið náttúrusafni „Lærða skólans“, sem nú heitir Menntaskólinn í Reykjavík.
„Þá var á Eyrarbakka ekki aðeins ein stærsta verslun landsins, heldur hélt tónlistin á Suðurlandi innreið sína hér á Eyrarabakka. Fyrsta píanóið kom til landsins með frú Sylvíu Thorgrimsen sem var orðin stórpíanisti í Kaupmannahöfn en flutti heim á ný með eiginmanni sínum, verlsunarstjóra Lefolii verslunarinnar. Þessi söguleg tenging við tónlist finnst Valgeiri alveg dásamleg,“ segir Ásta Kristrún.
„Valgeir segir að fuglatónleikarnir séu fyrir honum bæði ánægjuleg skemmtun en líka eins konar óður til tónlistar- og vísindaiðkunar á 19. öld hér á Bakkanum“ sagði Ásta Kristrún að lokum“.
Tónleikarnir verðða í Bakkastofu á Eyrarbakka sunnudaginn 22. apríl og hefjast kl. 17:00.