-8.9 C
Selfoss
Home Fréttir Sveitarstjórnamál Opinber gjöld hækka í Árborg

Opinber gjöld hækka í Árborg

0
Opinber gjöld hækka í Árborg

Í byrjun árs 2017 urðu nokkrar hækkanir á opinberum gjöldum hjá Sveitarfélaginu Árborg. Ásta Stefándsóttir, framkvæmdastjóri sveitarfélagsins, var spurð hvaða breytingar hafa orðið á fasteignagjöldum og öðrum opinberum gjöldum af hálfu sveitarfélagsins nú í byrjun árs 2017 og hver ástæða hækkananna væri.

Svar Ástu var eftirfarandi:
„Fasteignaskattsprósenta hækkaði núna um áramótin úr 0,30% í 0,35%. Álagningarhlutfall vatnsgjalds, fráveitugjalds og lóðarleigu er óbreytt á milli ára. Sorphirðugjald hækkaði um 2.883 kr. á milli ára (miðað við 240 lítra tunnu) til samræmis við aukinn kostnað við sorphirðu og sorpeyðingu, en gjaldinu er ætlað að standa undir þeim kostnaði.
Aðrar gjaldskrár sveitarfélagsins hækkuðu um 2,4% á milli ára, sem er i samræmi við áætlaða hækkun verðbólgu skv. síðustu þjóðhagsspá, og er þannig ætlað að endurspegla kostnaðaraukningu sveitarfélagsins. Foreldrar leikskólabarna greiða nú um 15–16% kostnaðar við rekstur leikskóla með leikskólagjöldum og hefur það hlutfall farið lækkandi milli ára. Gjaldskrárhækkanir hafa þannig ekki náð að halda í við aukin útgjöld. Samkvæmt nýrri samantekt verðlagseftirlits ASÍ er verð fyrir skólamáltíðir lægst í Árborg af 15 fjölmennustu sveitarfélögum landsins og kostnaður við skólamat og skólavistun undir meðallagi. Könnunina má sjá á vef ASÍ, www.asi.is.“