Rut Ingólfsdóttir fiðluleikari og kirkjukórar Breiðabólstaðarprestakalls og Odda- og Þykkvabæjarkirkna efna sameiginlega til tónleika í þremur kirkjum í Rangárþingum eystra og ytra í mars. Tónleikarnir verða 7. mars, 14. mars og 21. mars
Rut Ingólfsdóttir, sem hlaut heiðursverðlaun Íslensku tónlistarverðlaunanna á síðasta ári, mun leika Partítu í d-moll fyrir einleiksfiðlu eftir Johann Sebastian Bach. Kirkjukórarnir, rúmlega 40 söngvarar, munu syngja þekkt sálmalög í útsetningu Bachs undir stjórn Kristínar Sigfúsdóttur og Guðjóns Halldórs Óskarssonar.
Sálmarnir sem sungnir verða tengjast þessu meistaraverki Bachs fyrir fiðluna Partítu í d-moll, en einn kafli þess er hin þekkta Ciacconna. Sagt er að Bach hafi samið Ciacconnuna í minningu konu sinnar sem dó ung frá mörgum börnum þeirra. Með fiðluleik Rutar syngja einnig Aðalheiður M. Gunnarsdóttir, sópran, Sigríður Aðalsteinsdóttir, alt og Bjarni Guðmundsson, baritón. Allir þátttakendur eru búsettir í Rangárþingum.
Tónleikarnir verða haldnir: í Oddakirkju á Rangárvöllum 7. mars kl. 20:00, í Krosskirkju í Landeyjum 14. mars kl. 20:00 og í Hlíðarendakirkju í Fljótshlíð 21. mars kl. 20:00.
Aðgangur er ókeypis. Tónleikarnir eru m.a. styrktir af SASS.