8.4 C
Selfoss

Hvernig er að vera í kvenfélagi á Hvolsvelli?

Vinsælast

Hvernig er að vera í kvenfélagi? Fyrir það fyrsta þá er lítið bakað en mikið hlegið og alltaf gaman.

Kvenfélagið Eining í Hvolhreppi var stofnað 1926 og hefur starfað af fullum krafti síðan. Það sem við höfum verið að sýsla með í gegnum tíðina er að afla fjár til að styrkja ýmis góð málefni í héraði eins og heilsugæslu, HSU, björgunarsveit, leik- og grunnskóla, einstaklinga og margt fleira. Fjáröflun er með ýmsum hætti, við höldum bingó, flóamarkað, tombólu, basar, sjáum um kaffisölu á firmakeppni hestamannafélagsins og margt fleira. Við höfum haldið góugleði með ýmsu þema og má þar nefna kúrekaþema, grímuball og hippaþema.

Ekið um götur Hvolsvallar með lúðrablæstri og söng.

Margt annað er sér til gamans gert. Við förum í leikhús, ferðalög og höldum skemmtifundi og einnig eru matarkvöldin okkar vinsæl. Þar taka nokkrar konur sig saman og elda girnilega rétti og bjóða svo til veislu. Gestirnir greiða aðeins fyrir kostnað við hráefni. Þann 19. júní bregðum við á leik. Förum um götur Hvolsvallar með lúðrablæstri og söng dregnar áfram af björgunarsveitarbíl, förum í hláturjóga eða gerum eitthvað annað skemmtilegt og fáum okkur svo kaffi saman á eftir.

Í janúar erum við með það sem við köllum nýjársbíó. Þá bjóðum við öllum börnum á svæðinu upp á bíósýningu í Hvolnum og að sjálfsögðu er boðið upp á popp og kók eins og í alvöru bíói. Loftið, húsnæði félagsins, er opið einu sinni í viku yfir vetrarmánuðina. Þar geta þær sem vilja komið til að spjalla eða taka með sér handavinnu. Núna erum við að sauma töskur í samstarfi við sveitarfélagið og hin kvenfélögin á svæðinu. Ætlunin er að gefa hverju heimili í Rangárþingi eystra eina tösku hverju. Þetta verða yfir 600 töskur svo það er mikill saumavélaþytur í sveitinni þessa dagana.

Við buðum sveitungum okkar á fyrirlestur um hamingjuna og var það vel sótt og mikil hamingja sveif yfir vötnum. Núna er verið að undirbúa hagyrðingakvöld sem áætlað er að verði á vordögum. Eins og þið sjáið þá er margt skemmtilegt að gerast í kvenfélögum.

Ef þú ert að íhuga að ganga í kvenfélag drifðu þig þá núna strax. Þú sérð ekki eftir því.

Kvenfélagskveðja fyrir hönd 45 kátra kvenfélagskvenna
Margrét Tryggvadóttir, formaður

(Kvenf Eining 3)

Brugðið á leik 19. júní.

(Kvenf Eining merki)

Nýjar fréttir