-7.1 C
Selfoss

Við þurfum góðan stuðning

Vinsælast

Undirbúningur fyrir bikarleik Selfoss gegn Fram í undanúrslitum „Final 4“ í handknattleik karla sem fram fer í Laugardalshöll föstudaginn 9. mars næstkomandi er þegar hafinn. Í mörg horn er að líta en ljóst er að Selfyssingar munu fjölmenna á leikinn og styðja sína menn alla leið. Patrekur Jóhannesson þjálfari liðsins var spurður út í undirbúning liðsins.

„Undirbúningurinn byrjaði strax þessari viku þ.e. í gær eftir góðan sigur á ÍBV í Eyjum. Þá tókum við  lyftingaæfingu og jóga eins og við erum vanir. Þar fengu strákarnir ákveðna endurnægingu. Svo borðum við hjá Tomma á Kaffi Krús en hann bauð okkur í mat. Þar tökum við örugglega fund þar sem ég mun fara vel yfir það hvernig við munum nýta dagana fram að bikarleiknum. Það er búið að vera mikið álag og ég mun gefa mönnum aðeins frí eftir þessa törn sem er búin að vera. Alla dagana frá mánudegi og fram að leikdegi verðum við svo með undirbúning fram að leiknum við Fram. Það verður þó ekki mikil breyting þannig séð. Mér finnst mikilvægt að halda bara sama undirbúningi. Það hentar okkur vel,“ segir Patrekur.

Hverjir eru möguleikarnir á móti Fram?
„Þó Fram sé ekki ofarlega í deildinni þá eru þeir ótrúlega seigir og tóku t.d. FH-inga með sjö mörkum í 8-liða úrslitunum. Menn vita því alveg að þeir geta spilað mjög góðan bolta. En við erum þarna ásamt þeim, Haukum og ÍBV. Auðvitað er markmið okkar að komast í úrslitaleikinn og þegar þangað er komið að vinna.“

Patrekur segir að eftir Eyjaleikinn leggjast yfir bikarleikinn með þjálfarateyminu. „Við vitum þannig séð styrkleika þeirra og þeir vita styrkleika okkar. Þetta er líka spurning um hvernig menn höndla spennustigið. Ég held að það verði stór þáttur í þessu.“

Stuðningur heimamanna hlýtur að skipta miklu máli?
„Við erum eitt af fáum liðum í deildinni í vetur sem hafa yfirleitt verið með fullt hús á heimaleikjum. Það er gríðarlega mikilvægt fyrir okkur að finna það. Ég held að það verði líka þannig í Höllinni. Við erum með ótrúlega flott stuðningsfólk. Mér finnst líka góð tenging á milli leikmanna og stuðningsmanna. Liðið er nær eingöngu skipað heimamönnum og það gerir þetta samband svona sterkt. Ég hef trú á því að það verði fullt af fólki sem mæti. Við þurfum að fá góðan stuðning ef við ætlum að vinna þetta. Þegar maður spilaði hérna á Selfossi með KA í gamla daga fann maður alveg fjörið í húsinu. Það er miklu skemmtilegra að hafa fólkið með sér og finna hvað það tengir vel við strákana. Við erum stoltir af því að hafa náð því svona vel í vetur,“ segir Patrekur.

 

Nýjar fréttir