Kvenfélag Laugdæla var stofnað þann 26. maí 1960. Stofnfélagar voru 18. Á stofnfundi var ákveðið að félagið héti Kvenfélag Laugdæla og að félagssvæði þess næði yfir Laugardalshrepp. Tilgangur félagsins var og er enn að efla og vinna að velferðarmálum sveitarfélagsins og rennur nær allur hluti af tekjum félagsins til góðgerðamála og stuðnings við ýmis málefni. Kvenfélagið hélt upp á 50 ára afmæli árið 2010 og bauð til kaffisamsætis af því tilefni.
Félagar í Kvenfélagi Laugdæla eru nú 34 og hefur sá fjöldi verið nokkuð stöðugur undanfarin ár. Félagið fundar fjórum sinnum á starfsári. Tveir reglulegir fundir eru á hausti og tveir á vori. Fastir liðir í starfseminni eru nokkrir. Kvenfélagið sér um skrýða fjallkonu og kaffihlaðborð á 17. júni hátíðarhöldum, en þjóðhátíðardagurinn er ávallt haldinn hátíðlegur á Laugarvatni og fjöldi fólks kemur og sækir dalinn heim. Á hverju hausti stendur félagið fyrir bingói. Það er alltaf fjölsótt og rennur allur ágóði af bingóinu til góðgerðamála.
Aðrir fastir liðir í starfsemi kvenfélagsins er blómasala, sem oftast fer fram að vori og jólamarkaður á Ljósadegi Laugælinga. En Ljósadagurinn er hefð, haldinn ár hvert laugardaginn fyrir fyrsta sunnudag í aðventu. Þá koma Laugdælingar og gestir þeirra saman, jólamarkaður kvenfélagsins er haldinn, kveikt á jólatrénu í Bjarnalundi við hátíðlega athöfn og endað á að ganga niður að vatni og fleyta kertum. Lionsklúbbur Laugardals sér um þá liði hátíðarhaldanna.
Jólamarkaðurinn í ár var með nokkuð breyttu sniði að því leyti að hann var nú haldinn í húsnæði Háskóla Íslands á Laugarvatni. Áður var hann haldinn í húsnæði grunnskólans, en þar var farið að þrengja illa að og því var brugðið á það ráð að fá inni í HÍ og kunnum við kvenfélagskonur húsráðendum þar miklar þakkir fyrir. Þar var nóg pláss fyrir fjölda söluborða og allan þann fjölda fólks sem kom á markaðinn og í vöfflukaffið sem kvenfélagið selur á þessum degi. Margir söluaðilar voru með borð á markaðnum og þar á meðal konur í kvenfélaginu, sem seldu ýmsar heimagerðar vörur. Þar voru líka á boðstólnum töskur, sem kvenfélagskonur höfðu saumað upp úr gömlum gardínum. Þær voru afar vandaðar og fallegar og runnu út eins og heitar lummur.
Einnig sjá konur í félaginu um jólaball barna einhvern daganna á milli jóla og nýárs, og um spilakvöld þar sem spiluð er vist og boðið upp á kaffi og meðlæti.
Á haustin er gjarnan farið í skemmtiferð, stundum með Lionsfélögum. Í haust er leið var slík ferð farin um Ölfusið og í Hveragerði.
Svo má segja frá því að síðastliðið haust tóku stjórnarkonur í kvenfélaginu að sér að sjá um lýðheilsugöngur FÍ í Laugardal, skipulagningu og fararstjórn. Fjórar ferðir voru farnar, alltaf í góðum félagsskap glaðs göngufólks. Mikill hugur er í konum að halda þessum göngum áfram næsta sumar, kannski mánaðarlega eða oftar.
Þetta er einungis lítið ágrip af því sem fer fram í Kvenfélagi Laugdæla, margt fleira mætti telja upp. Kvenfélög eru mikilvægur hlekkur í hverju samfélagi og varla hægt að telja upp öll þau verkefni sem konur innan þeirra sinna í þágu samborgara sinna.
Nánar má kynna sér starf KL á fb síðu félagsins. Þar er einnig fjöldi mynda.
Með kvenfélagskveðju, stjórn Kvenfélags Laugdæla