Útibú Íslandsbanka á Selfossi mun flytja tímabundið í húsnæði að Austurvegi 6, sem er beint á móti húsnæði Íslandsbanka, á meðan unnið verður að endurbótum í útibúinu á Austurvegi 9. Öll hefðbundin bankaþjónusta verður veitt í tímabundnu húsnæði. Jón Rúnar Bjarnason útibússtjóri segir að nýtt og glæsilegt útibú verði opnað í byrjun maí.
„Viðskiptavinir okkar nýta sér í auknum mæli aðrar dreifileiði líkt og app, netbanka og hraðbanka og það er því minna um þessar einfaldari færslur. Hönnun og virkni útibúsins tekur mið af þessum breyttu áherslum. Mikil áhersla verður lögð á ráðgjöf í útibúinu því hingað koma margir sem eru að taka sínar stærstu ákvarðanir eins og til dæmis um fasteignakaup,“ segir Jón Rúnar.
Útibú Íslandsbanka á Selfossi hefur verið starfandi í 41 ár og sett sinn svip á bæinn. „Það er einstakt í svona minni bæjarfélögum að geta átt gott og persónulegt samband við viðskiptavini. Útibúið verður óhefðbundið að því leyti að það er sérstaklega lagt upp úr því að hafa frjálslega og notalega stemningu. Viðskiptavinir geta því staldrað við í kaffibolla um leið og farið er yfir málin. Við erum spennt að taka á móti okkar fólki í nýju útibúi.“