Ungmennaráðstefnan Ungt fólk og lýðræði fer fram á hótel Borealis Efri-Brú í Grímsnesi dagana 21.–23. mars næstkomandi. Með ráðstefnunni er lögð áhersla á að efla lýðræðislega þátttöku ungs fólks í leik og starfi. Þar er lögð áhersla á að einstaklingar geti styrkt sjálfsmynd sína og tekið upplýstar ákvarðanir um eigið líf og lífsstíl. Ráðstefnan hefur verið haldin árlega frá árinu 2009 og hefur því fest sig í sessi á meðal mikilvægustu viðburða fyrir ungt fólk á Íslandi.
Á síðustu ráðstefnu á Laugabakka í Miðfirði á síðasta ári kom fram að fleira ungt fólk fær nú tækifæri til að móta samfélagið og koma að ákvarðanatöku á öllum stigum þess. Ráðstefnugestir töldu æskilegt að breyta lögum með þarfir ungs fólks að leiðarljósi og var samhugur um lækkun kosningaaldurs niður í 16 ár fyrir næstu sveitarstjórnarkosningar. Andrés Ingi Jónsson, þingmaður VG, var gestur ráðstefnunnar í Miðfirði. Hann hefur ásamt fleirum lagt fram frumvarp um einmitt lækkun kosningaaldurs.