-5 C
Selfoss

Krabbameinsfélagið þakkar fyrir árið 2017

Vinsælast

Árið 2017 var, líkt og fyrri ár, viðburðaríkt hjá Krabbameinsfélagi Árnessýslu. Ný stjórn tók til starfa á vormánuðum og var stefnan sett á að efla þjónustu í heimabyggð. Lyflækningadeild Heilbrigðisstofnunar Suðurlands fékk loks fjármagn til að veita krabbameinslyfjameðferðir á Selfossi og var þar með miklu álagi létt af þeim sem annars hafa þurft að sækja allar meðferðir til Reykjavíkur. Félagsskapurinn Brosið hittist reglulega yfir vor og haustmánuði. Félagsskapurinn byggir á samveru, stuðningi og fræðslu og er opinn öllum þeim sem glíma við eða hafa glímt við veikindi. Bleikur október var haldinn hátíðlegur og naut félagið góðrar samvinnu og stuðnings frá mörgum fyrirtækjum, félögum og einstaklingum. Selfosskirkja var með bleika messu í upphafi október þar sem séra Guðbjörg skartaði fallega bleikum hökli og stólu sem saumað var af Eygló Jónu Gunnarsdóttur, djákna. Í messunni sagði aðstandandi frá reynslu sinni af krabbameinsferlinu og var frásögnin bæði hugljúf og skemmtileg. Sunnulækjarskóli stóð fyrir góðgerðardögum í desember þar sem nemendur og starfsfólk bjuggu til ýmsan varning sem síðan var seldur til styrktar Krabbameinsfélagi Árnessýslu. Lindex stóð einnig þétt við bakið á félaginu og styrkti félagið um ágóða af sölu bleiks armbands sem seldist í vefversluninni í október. Kvenfélag Skeiðahrepps færði félaginu einnig ríkulegan styrk í kjölfar af bleikum október. Krabbameinsfélag Árnessýslu er þakklátt fyrir sýndan stuðning og hlýhug í garð félagsins og verður fjármununum meðal annars varið í að efla þjónustu í heimabyggð.

Hlutverk Krabbameinsfélags Árnessýslu er að veita stuðning, ráðgjöf og fræðslu til einstaklinga og fjölskyldna sem greinst hafa með krabbamein. Á nýju starfsári stefnir félagið á að bjóða upp á viðburði í hverjum mánuði þar sem vonandi sem flestir geta fundið styrk, ráðgjöf eða fræðslu í. Nánari dagskrá félagsins verður birt í upphafi árs, bæði í fréttamiðlum og á samfélagsmiðlum. Félagið vekur athygli á facebooksíðu sinni, Krabbameinsfélag Árnessýslu. Símanúmer félagsins er 788-0300 og netfangið; arnessysla@krabb.is.

Fyrir hönd Krabbameinsfélags Árnessýslu,
Svanhildur Ólafsdóttir, formaður

Nýjar fréttir