-5.8 C
Selfoss

Ákvað að halda nafninu og nú heitir bakaríið Guðni bakari

Vinsælast

„Ég var búinn að hugsa um þetta í nokkur ár. Mér finnst nefnilega Suðurlandi vera svo stutt frá Reykjavík. Þetta er orðið svo stutt á milli, mikil sumarbústaðabyggð og fólk sem býr á Selfossi og vinnur í bænum og þekkir mínar vörur. Mér fannst því þetta kjörið tækifæri til að koma hingað,“ segir Jóhannes Felixson, eða Jói Fel eins og hann er oftast nefndur, sem nýverið keypti Guðnabakarí á Selfossi og Kökuval á Hellu.

„Mig langaði líka að breyta aðeins til sjálfur, en ég er búinn að vera með mitt fyrirtæki í tuttugu ár. Mig langaði að leyfa Sunnlendingum að fá að njóta þeirra vara sem ég er að búa til. Meðeigandi minn, Sævar Birgisson, er fæddur og uppalinn í Hveragerði og hefur m.a. búið á Hellu. Ég ákvað að taka hann með mér í þetta.“

Átti gott spjall við Guðna
Hver var aðdragandinn að kaupunum á Guðnabakaríi?
„Ég hafði samband við Guðna í febrúar 2017. Þá áttum við gott spjalla en við vorum búnir að vera vinir til margra ára. Ég vissi að hann var orðinn svolítið veikur og máttfarinn þannig að ég spurði hann hvort ég ætti ekki bara að kaupa þetta af honum. Honum leist bara mjög vel á það. Við ræddum síðan ekki mikið meira saman eftir það. En eftir að Guðni féll frá hafði fjölskyldan samband við mig af því að þau höfðu verið að ræða málið. Þá var ákveðið að ganga i málið og það tók ekki nema mánuð að klára þetta þ.e. ganga frá kaupunum.“

Hvernig komu kaupin á Kökuval á Hellu til?
„Það kom þannig til að Ómar [eigandi fyrirtækisins] hafði sjálfur ákveðið að loka um áramótin. Þannig að ef að ég hefði ekki tekið við þá hefði ekkert bakarí verið á Hellu. Mér fannst alveg tilvalið að víkka aðeins sjóndeildarhringinn hérna á Suðurlandinu. Það tekur ekki nema 20–25 mínútur að keyra á Hellu frá Selfossi. Þar er nýtt fólk og aðrir ferðamenn og fín sala en það þurfti bara að samnýta þetta. Með því að sameina Kökuval og Guðnabakarí erum við með stærra fyrirtæki sem á að vera auðveldara að reka. Við getum samnýtt ýmislegt bæði í innkaupum og vörum. Ómar segist sjálfur vera kominn á aldur þó hann sé ekkert voðalega gamall. Það getur verið erfitt að reka lítið fjölskyldufyrirtæki eins og Kökuval. Það getur verið erfitt að taka sér frí og fara frá. “

Ætla að koma með Jóa fel vörurnar inn
Hver eru fyrstu skrefin núna þegar þú hefur tekið við rekstri þessara bakaría?
„Við ætlum að koma með þær vörur sem ég er búinn að vera með í þessi tuttugu ár sem ég er búinn að vera með fyrirtækið. Ég ætla að koma með „Jóa Fel vörurnar“ hérna inn. Auðvitað verður eitthvað eftir sem Guðnabakarí er þekkt fyrir. Við keyptum líka nýjan steinofn sem er kominn upp í bakaríinu. Þannig að öll okkar brauð eru bökuð á steini. Brauðin verða bragðmeiri og skorpumeiri. Við erum með súrdeigsbrauð og gerlaus brauð. Þetta er svolítið öðruvísi en var hérna í bakaríinu. Fólk þarf aðeins að venjast því. Það verða engin formbrauð. Svo erum við með aðrar þekktar vörur eins og sælkerasnúða og vínabrauðin okkar. Eins eru samlokurnar okkar vel þekktar og mjög flottar. Hér er bannað að spara því hér á fólk að njóta. Það á að vera visst um að það sé mikið lagt í þá vöru sem við erum að búa til.“

Fólk keyrir bara í bakaríið
Hvað með aðra þéttbýlisstaði á Suðurlandi, hefurðu eitthvað spáð í að opna bakarí á fleiri stöðum?
„Það er mjög gott bakarí í Hveragerði hjá honum Almari. Hann á hrós skilið fyrir að hafa gert góða hluti þar. Þannig að ég er nú ekki að fara þangað. Ég held að það sé erfitt að opna búðir á öðrum stöðum af því að þeir staðir eru of litlir. Ég vona að íbúarnir geri sér bæjarferð annað hvort á Selfoss eða á Hellu og komi við í bakaríinu. Eftir að hafa verið hérna undanfarnar vikur heyrir maður að tíu mínútur og upp hálftíma er bara ekkert mál fyrir fólk sem býr hérna. Þetta er kannski lengra fyrir okkur sem eru vön öðru. Þannig að ég sé að fólk komi bara keyrandi sína vegalengd og fá sér ný brauð.“

Nýbakað brauð í bústaðinn
Hvernig sérð þú Suðurlandið fyrir þér sem markaðssvæði?
„Ég ætla náttúrulega númer eitt, tvö og þrjú að sinna íbúum hérna á Suðurlandi og vona að þeir verði ánægðir. Ferðamaðurinn kemur oftast bara einu sinni og svo er hann farinn. Þannig að maður þarf auðvitað að vera með góða vöru og mikið af henni fyrir útlendingana. Svo eru náttúrulega sumarbústaðirnir sem eru hér allt í kring. Þar er fólk alls staðar af landinu, en þó kannski aðallega af höfuðborgarsvæðinu sem þekkir þá mína vöru. Ég reikna með að það fólk komi til mín í kaffi um helgar og taki með sér nýbakað brauð i bústaðinn.“

Nöfnin verða „Guðni bakari“ og „Kökuval“
„Annað sem mig langar að koma að er að ég ákvað að halda Guðna nafninu og nú heitir bakaríið Guðni bakari. Ég ætla að halda því nafni vegna mikils vinskapar og í minningu Guðna. Ég ætla að láta Kökuval halda sínu nafni til að byrja með en sjá svo til hvort við breytum því yfir í Guðna bakara. Fyrirtækin verða rekin sér og tengjast ekki rekstri mínum í bænum nema að vörurnar, þ.e. frá Jóa Fel, verða þær sömu,“ segir Jói Fel að lokum.

Nýjar fréttir