7.8 C
Selfoss

Fjallað um keppnisaðstöðu fyrir handknattleik á Selfossi

Vinsælast

Frá því síðastliðið sumar hafa verið umræður milli Sveitarfélagsins Árborgar og handknattleiksdeildar Umf. Selfoss um keppnisaðstöðu deildarinnar. Umræðan er m.a. tilkomin vegna stöðuskýrslu frá Handknattleikssambandi Íslands þar sem fram kom að íþróttahús Vallaskóla stæðist ekki kröfur um mótsleiki í efstu deildum í handknattleik. Þar kom einnig fram að íþróttahúsið Iða væri mun betri kostur þó svo að þar væri ekki alveg fullt öryggissvæði á annarri langhliðinni og að laga þyrfti nokkra þætti.

Þetta kemur m.a. fram í minnisblaði sem Bragi Bjarnason, menningar- og frístundafulltrúi Árborgar, vann og lagði fyrir bæjarráð 19. janúar sl.

Í minnisblaðinu kemur einnig fram að ákveðið hafi verið í framhaldinu að óska eftir undanþágu fyrir íþróttahús Vallaskóla tímabilið 2016–2017 með þeim formerkjum að Sveitarfélagið í samstarfi við handknattleiksdeildina finndi viðunnandi lausnir fyrir haustið 2017.

Handboltinn yfir í Iðu
Eftir góðar umræður var ákveðið láta reyna á þann möguleika að handknattleiksdeildin flytti kjarnastarfsemi sína yfir í Iðu. Einnig að þær greinar sem hafa verið í Iðu þ.e. körfubolti, frjálsar íþróttir, fótbolti og íþróttir fatlaðra, flyttust yfir í íþróttahús Vallaskóla.
Strax í upphafi var ljóst að lagfæra þyrfti nokkra hluti í báðum íþróttahúsunum og var gert ráð fyrir aukafjármagni í áætlun 2017 til þess. Má þar nefna skorklukku og fjölmiðlaaðstöðu í Iðu og auka körfuboltakörfur og þrekaðstöðu í Vallaskóla.

Handknattleiksdeildin lagði fram nokkrar óskir um þætti sem þyrftu að vera í lagi áður en deildin gæti flutt sig yfir í Iðu. Frá upphafi lá ljóst fyrir að semja þyrfti við skólayfirvöld FSu til að þær ráðstafanir gætu gengið eftir. Óskirnar voru m.a.:
– Leyfi fyrir notkun Harpix í Iðu. (Leyfi hefur fengist fyrir því).
– Leyfi til að setja upp auglýsingar á veggi og gólf í samráði við húsvörð. (Leyfi hefur fengist fyrir því).
– Skipta þurfi um gólfefni í Iðu. (Er í skoðun).
– Skorklukku þyrfti að endurnýja (Er í áætlun).
– Bæta þyrfti fjölmiðlaaðstöðu líkt og HSÍ benti á. (Er í áætlun).
– Aðgengi að Iðu þyrfti að vera gott og nánast óheft fyrir iðkendur. (Reynt verður að hafa húsið opið fyrir iðkendur eins og óskað er eftir).
– Nokkur önnur atriði sem ættu að leysast í samráð við húsvörð.
Rætt um gólfið í Iðu

Þann 10. janúar sl. var haldinn fundur með fulltrúum sveitarfélagsins og handknattleiksdeildarinnar. Þar kom fram að leyfi hefði fengist fyrir notkun Harpex og auglýsingum í húsinu. Staða mála gagnvart gólfefninu var einnig rædd. Í minnisblaðinu sem vitnað er í hér segir að kannski væri ekki þörf á að skipta gólfefninu út strax þar sem það var lagað sumarið 2015. Einnig að þetta væri sama gólfefni (líka lagt sama ár) og sett var í íþróttahúsið Mýrina í Garðabæ.

Á fundinum setti stjórn handknattleiksdeildar fram þá kröfu að skipt yrði um gólfefni í Iðu áður en deildin færði starfsemi sína. Stjórn deildarinnar lagði m.a. fram þau rök að leikmenn myndu lenda í álagsmeiðslum á næsta tímabili ef þeir æfðu og spiluðu á núverandi gólfefni, leikmenn meistaraflokks félagsins vildu ekki æfa á núverandi gólfefni og að erfitt gæti reynst að semja við núverandi leikmenn ef spilað yrði á þessu gólfi í Iðu.

Sveitarfélagið lagði fram minnisblað þar sem fram kom samantekt á viðtölum sem tekin voru við núverandi notendur í Iðu og Mýrinni í Garðabæ sem var notað til samanburðar. Þar segir að ekkert sé til af vísindalegum gögnum varðandi meiðsli sem rekja megi til gólfefnisins í Iðu. Reynsla starfsmanna og notenda af gólfinu sé góð og að þeir muni ekki eftir neinum sérstökum meiðslum sem rekja megi til gólfsins. Það sé í góðu lagi í dag en skemmdir hafi verið lagaðar sumarið 2015.

Í minnisblaðinu kemur fram, að mati menningar- og frístundafulltrúa, að það sé helst niðurstaða fundarins að það sé tilfinning stjórnar handknattleiksdeildar að gólfefni Iðu sé það illa farið að það muni skaða leikmenn félagsins og að þeir ættu að njóta vafans.

Í framhaldi af fundinum ræddi menningar- og frístundafulltrúi við þrjá leikmenn meistaraflokks karla til að fá þeirra sýn á mögulegar breytingar. Leikmennirnir nefndu kosti og galla og voru mjög málefnalegir í sínum skoðunum. Viðtölin gáfu þá mynd að gólfefnið í Iðu hefði komið til tals hjá hluta æfingahópsins en það væri ekki þannig að leikmenn vildu ekki æfa eða spila á því.

Samþykkt að láta gera erlenda úttekt
Í framhaldi þess sem er rætt hér að ofan var lögð greinargerð fyrir fund bæjarráðs Árborgar 21. janúar. Þar segir að rökin fyrir því að skipta um gólfefni í Iðu séu að mestu tilfinningalegs eðlis. Einnig að möguleiki sé á að gera það sumarið 2017 eða fá undanþágu í eitt keppnistímabil til viðbótar og gera það 2018. Í tillögunni kemur einnig fram að hægt sé að fá fyrirtæki erlendis frá til að prófa gólfefnið í Iðu og myndi það kosta um 900.000 kr. Í greinargerðinni segir enn fremur að miðað við tilboð frá Altis ehf. kosti um 32 milljónir að skipta um gólf í Iðu. Bæjarráð samþykkti að láta gera úttekt á gólfinu.

Nýjar fréttir