Í byrjun janúar náði íbúatala Sveitarfélagsins Árborgar 9.000. Íbúar númer 8. 999 og 9.000 voru hjónin Stefán Hafsteinn Jónsson og Bára Leifsdóttir. Þau fluttu í byrjun árs í nýja íbúð sem þau keyptu í Gráhellu 6 á Selfossi. Þau hjónin fluttu til Selfoss frá Reykjavík þar sem þau hafa búið frá 2004.
Frá 1998 til 2004 bjuggu þau á Selfossi, en þar áður voru þau með kúabú á jörðinni Kálfhóli í Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Þegar þau bjuggu á Selfossi vann Stefán við píðulagnir hjá KÁ og Bára við umönnun á Ljósheimum. Í dag vinnur Stefán við pípulegnir í Reykjavík en Bára er heimavinnandi.
„Við fengum íbúð hér á Selfossi á mun lægra verði en gengur og gerist í Reykjavík um þessar mundir. Ætli það muni ekki 10–15 milljónum. Svo erum við líka nær bústaðnum okkar uppi á Skeiðum sem er mikill kostur,“ segir Bára.
Í tilefni þess að íbúatala Árborgar náði tölunni 9.000 mættu þau Ásta Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Árborgar, og Kjartan Björnsson, bæjarfulltrúi, og færðu þeim Stefáni og Báru blómvönd.
Á árinu 2017 fjölgaði íbúum í Árborg um 500. Allir byggðarkjarnar sveitarfélagsins bættu við sig íbúum „enda vilji til að halda áfram að bjóða upp á fjölbreytt búsetuform í sveitarfélaginu“, eins og segir á heimasíðu Árborgar. Í byrjun árs 2018 náði Árborg þeim áfanga að íbúi númer 9000 flutti í sveitarfélagið eins og fram kemur hér að ofan. Bára Leifsdóttir ber titilinnn „Níu þúsundasti íbúinn í Sveitarfélaginu Árborg“.