-6.1 C
Selfoss
Home Fastir liðir Fólk mun alltaf finna leiðir til að halda sögum á lífi

Fólk mun alltaf finna leiðir til að halda sögum á lífi

0
Fólk mun alltaf finna leiðir til að halda sögum á lífi
Haukur Snær Gunnarsson.

Haukur Snær Gunnarsson, lestrarhestur Dagskrárinnar, er tuttugu og eins árs gamall, fæddur 11. september 1996, alinn upp í Flóahrepp, búsettur á Selfossi og vinnur þessa stundina að því að ljúka stúdentsprófi frá FSu. Auk þess er hann trommari í hljómsveit og segist hafa gaman af að skrifa skáldaðar sögur, lesa og safna bókum, hlusta á tónlist og sinna öðru skapandi starfi.

Hvaða bók ertu að lesa núna?
Ég var að klára The Disaster Artist eftir Greg Sestero og Tom Bissel um gerð bestu-verstu kvikmyndar allra tíma The Room. Núna er ég nýbyrjaður á The Grapes of Wrath eftir John Steinbeck. Það er oftar titlarnir sem ná áhuga mínum frekar en umsögnin. Grapes of Wrath eða Þrúgur reiðinnar í íslenskri þýðingu er talið eitt af höfuðverkum bókmenntanna sem maður verður að lesa og af góðum ástæðum.

Hvernig eru lestrarvenjur þínar?
Það fer eftir dögum. Stundum les ég mikið og stundum lítið. Ég er núna að reyna að venja mig við að lesa meira í staðinn fyrir þessa netfíkn sem ég og margir glíma við. Þegar ég dett í gírinn bruna ég í gegnum bók eftir bók og þannig líður mér best.

Hvers konar bækur höfða til þín?
Ég hef mestan áhuga á allskonar amerískum skáldsögum og les aðallega á ensku. En svo er ýtt að manni einni og einni íslenskri inn á milli. Mér finnst ekki gaman að lesa íslenskar þýðingar svo annað hvort les ég erlendar bækur á ensku eða íslenskar bækur á íslensku.

Áttu þér áhugaverða lestrarminningu?
Ég var ekki mikið fyrir lestur fyrr en ég varð 16 ára en þá langaði mig að prófa eitthvað annað en að hanga alltaf í tölvunni. Ég ákvað því að skreppa á bókasafnið á Selfossi og ná í bók sem mig hafði lengi langað að lesa. Sú bók var Ender‘s Game eftir Orson Scott Card. Það kom mér á óvart hversu gaman var að lesa hana og svo fann ég fyrir þessari frábæru tilfinningu þegar ég kláraði bókina og langaði strax að lesa aðra bók. Síðan þá hef ég lesið margar bækur þótt það hafa komið langar pásur inn á milli en ég hef aldrei hætt.

Hver er uppáhalds barnabókin þín?
Uppáhaldsbókin mín þegar ég var yngri er ein af mörgum barnaútgáfum Robinson Crusoe eftir Daniel Defoe sem ég fékk að velja til lestrar í þriðja bekk grunnskólans. Textarnir í þessari útgáfu voru stuttir og áhugaverðir og svo innihélt hún myndir sem héldu athygli minni og ímyndunaraflinu á flugi og ég las þessa bók stundum oft á dag.

Er einhver bók sem hefur haft sérstaklega mikil áhrif á þig?
Slaughterhouse 5 eftir Kurt Vonnegut sem er um leið uppáhalds rithöfundurinn minn. Sagan fjallar um Vonnegut í seinni heimsstyrjöldinni þegar hann gegndi herskyldu en er sögð í gegnum skálduðu aðalpersónuna Billy Pilgrim. Billy er tekin til fanga og verður stríðsfangi og lifir af sprenginguna í Dresten sem höfundurinn upplifði í raun og veru. En síðan er honum rænt af geimverum og er á einhverskonar tímaflakki í gegnum alla söguna. Ástæðan fyrir því að bókin er uppáhaldið mitt er vegna þess að þótt sagan sé stórfurðuleg þá er hún skringilega alvarleg, fyndin og skemmtileg og fetar línuna á milli hins raunverulega og hins óútreiknanlega. Fyrir mann sem vill verða rithöfundur þá gefa svona sögur mér mestan innblástur.

Að lokum Haukur er til líf án bóka?
Það er kannski til heimur án bóka en ekki heimur sem ég vil vera partur af. Þótt bækur væru ekki til eða bannaðar eins og lýst er í Fahrenheit 451 eftir Ray Bradbury myndi fólk samt finna leiðir til að halda sögum á lífi.