-5 C
Selfoss

Hátíðleg stund í grunnskólanum í Hveragerði

Vinsælast

Það er áralöng hefð í Grunnskólanum í Hveragerði að vera með gangasöng á aðventunni. Síðasti gangasöngurinn er ávallt opinn gestum og gangandi. Síðastliðinn föstudag var opni gangasöngurinn og var það hátíðleg stund þegar nemendur og gestir komu saman og sungu inn jólin. Í ár voru heiðursgestirnir á opna gangasöngnum stjórn Hringsins, en félagið hefur það markmið að vinna að líknar- og mannúðarmálum, sérstaklega í þágu barna. Aðalverkefni félagsins um áratugaskeið hefur verið uppbygging Barnaspítala Hringsins. Nemendur skólans héldu góðgerðardag þann 1. desember síðastliðinn og seldu ýmsar afurðir sem unnar höfðu verið á góðgerðardögum skólans. Í dag var svo komið að því að afhenda upphæðina sem hafði safnast. Það voru Gígja Marín Þorsteinsdóttir formaður nemendafélags GÍH og Tryggvi Hrafn H. Tryggvason yngsti nemandi skólans sem afhentu Sonju Egilsdóttur formanni Hringsins táknrænt skjal fyrir millifærslu upp á 1.316.000 kr. til Barnaspítalans. Mikill fjöldi fólks mætti á þessa stund og fólk tók hressilega undir jólalögin sem sungin voru.

Við þökkum öllum þeim sem mættu á gangasönginn kærlega fyrir komuna. Einnig þökkum við sérstaklega öllum þeim sem studdu okkur í tengslum við góðgerðardaginn.

Nýjar fréttir