Ýmislegt er framundan hjá Bókasafni Árborgar á aðventunni. Jólabókaflóðið er í fullum gangi og nýjar og spennandi bækur streyma inn og út aftur á hverjum degi. Norræna félagið stendur fyrir bókakynningu á safninu fimmtudaginn 30. nóvember kl. 17:00 þar sem Þorgrímur Gestsson mun kynna bók sína Færeyjar út úr þokunni.
Jólaglugginn opnar þann 1. desember og verður spennandi að sjá. Þann sama dag opnar Jón Ingi Sigurmundsson sýningu í Listagjánni sem verður í sannkölluðum jólaanda en Jón hefur stutt Emlurnar um árabil með því að mála fyrir þær jólakort og nú verða frummyndirnar til sýnis allan desember mánuð.
Kvennfélag Selfoss hefur beðið safnið um að taka við gjöfum til styrktar Sjóðnum góða eins og gert var í fyrra og það er safninu heiður að fá að vera með í því. Hægt er að koma með pakka undir tréð frá og með 1. desember.
Amnesty International er með kortin sín til undirritunar í safninu til 16. desember.
Væntanlega mun Upprisukórinn syngja á safninu þann 6. desember og margt fleira er á döfinni á aðventunni, söngur, hljóðfærasláttur og sögustundir en frá því verður betur sagt síðar.
Bókasafnið hvetur íbúa til að nýta safnið vel. Kaffið og dagblöðin eru alltaf á sínum stað.