-5 C
Selfoss
Home Fréttir Tímamót í íslenskri nytjaskógrækt

Tímamót í íslenskri nytjaskógrækt

0
Tímamót í íslenskri nytjaskógrækt
Ingvar P. Guðbjörnsson, verkefnisstjóri hjá FsS.

Skógarvinnsla úr sunnlenskum skógarafurðum er að verða raunhæfur iðnaður eftir áratuga vinnu skógareigenda við ræktun nytjaskóga og einnig áratugastarf skógræktarfélaga og Skógræktarinnar.

Á hverju ári verða til í sunnlenskum skógum nokkur þúsund rúmmetrar af viði sem nauðsynlegt er að grisja og þar sem lítill sem enginn farvegur hefur verið fyrir afurðirnar hefur það efni safnast upp í skógunum. Nú er svo komið að nauðsynlegt er að grisja skógana svo þeir geti áfram vaxið og til að hámarka nytjar úr þeim.

Undanfarna mánuði hefur undirritaður unnið að verkefni fyrir Félag skógareigenda á Suðurlandi (FsS) með stuðningi Uppbyggingarsjóðs Suðurlands og verða niðurstöður þeirrar vinnu kynntar á fundi í Þingborg laugardaginn 25. nóvember nk. kl. 10:00. Verkefnið var að kanna hagkvæmni þess að hefja skógarvinnslu á Suðurlandi. Eitthvað sem flestir, sem viðkomandi hefur rætt við, töldu óhugsandi fyrir ekki svo löngu síðan.

Í stuttu máli sagt er niðurstaða þessarar vinnu sú, að nú séu forsendur til staðar til að hefja rekstur félags til að vinna afurðir úr skógunum og selja á markað. Nægilegt viðarmagn er til staðar og útreikningar benda til þess að framleiðslan sé arðbær. Auðvitað þurfa allar forsendur að ganga upp, ekki síst þær að skógareigendur geri samninga um afsetningu afurða og að nægilegt hlutafé safnist til að ýta starfseminni úr vör. Auk þess skiptir máli að markaðurinn bregðist jákvætt við. Ekki er ástæða til annars en bjartsýni í þeim efnum. Áætlanir gera ráð fyrir að skógareigendur muni strax á fyrsta ári fá greitt vel fyrir afurðir sínar og þar með verður til sjálfbær atvinnugrein.

Þegar landshlutaverkefni í skógrækt voru sett á laggirnar fyrir rúmum 20 árum óraði engan fyrir því að svo stutt yrði í það að huga þyrfti að grisjun, fellingu og nýtingu ýmissa afurða úr skógunum. Þetta er samt staðreynd í dag. Íslensk jólatré eru komin á markað, farið er að klæða hús að utan sem innan með íslenskri viðarklæðningu, garðhúsgögn úr íslenskum viði þykja skemmtileg, íslenskur eldiviður er aðgengilegur allt árið og farið er að nota kurl í göngu- og reiðstíga svo eitthvað sé nefnt. Nokkrir aðilar eru að framleiða undirburð undir húsdýr, en langstærstur hluti þess markaðar er innfluttur.

Sveitarfélögin á Suðurlandi hafa fengið kynningu á þessum áformum og eru öll velviljuð verkefninu og er vilji til að hefja samstarf við þau um afsetningu á hreinum viði sem safnast inn á gámasvæðin til að skapa úr þeim verðmæti á Suðurlandi í stað kostnaðar líkt og nú er. Með þessu verður til fyrirtæki sem stuðlar að aukinni umhverfisvernd og aukinni skógrækt um allt Suðurland, vaxandi kolefnisbindingu sem allt í senn styður við búsetu á landsbyggðinni og skapar auknar tekjur á svæðinu.

Nú er ekki eftir neinu að bíða með að hefjast handa. Stefnt er að því að í kjölfar kynningar á niðurstöðum verkefnisins á laugardag verði farið af stað með að safna hlutafé og stofna félagið. Vil ég hvetja skógareigendur og aðra þá sem áhuga hafa, til að mæta vel á fundinn og kynna sér það sem þar verður greint frá. Með jákvæðni og samvinnu mun þessi draumur frumkvöðla í sunnlenskri nytjaskógrækt rætast og mun fyrr en flesta dreymdi um.

Ingvar P. Guðbjörnsson, verkefnisstjóri hjá FsS.