Í síðasta mánuði hófust framkvæmdir við byggingu nýs hótels við Eyraveg 11–13 á Selfossi. Þar er um að ræða 70 herbergja hótel á fjórum hæðum og kjallara, samtals um 3.120 fermetrar. Á 1. hæð verður móttaka, morgunverðarsalur og 10 herbergi. Á 2., 3. og 4. hæð verða 20 herbergi á hverri hæð. Í kjallara verða fundaherbergi, starfsmannaaðstaða, þvottahús og geymslur. Herbergin eru flest 24 fermetra en átta herbergi eru 34 fermetra. Aftan við húsið er gert ráð fyrir 26 bílastæðum. Framkvæmdaaðili er Starrahæð ehf.
Framkvæmdir hófust í október sl. en áformað er að opna hótelið fyrri part árs 2019. Verktaki í jarðvinnunni er Ingileifur Jónsson á Svínavatni. Arkitekt hússins er Guðni Pálsson, GP arkitektar, og Verkfræðistofa Jóns Kristjánssonar sér um verkfræðiþáttinn. Verkefnastjóri framkvæmda er Aron Freyr Gíslason. Nokkrir aðilar hafa sýnt því áhuga að reka hótelið en ekki hefur verið gengið frá þeim málum.