Bókin Smáglæpir eftir Björn Halldórsson sem kom út í kilju á liðnu vori hefur nú verið endurútgefin í harðspjalda bók. Það er Bókaútgáfan Sæmundur sem gefur út.
Smáglæpir er smásagnasafn sem samanstendur af sjö sögum úr úthverfum Reykjavíkur. Hér eru skoðaðar ákvarðanir sem ekki verða aftur teknar og eftirsjá sem varir út ævina. Persónurnar bera sekt sína í hljóði þar til hún er orðin að þráhyggju sem hvorki er hægt að gangast við né leita sér aflausnar á. Þetta eru smáglæpirnir: tilfinningasárin sem við völdum, tækifærin til að breyta rétt sem við misstum af, orðin sem við létum ósögð. Bókin hlaut afburða góðar viðtökur lesenda á liðnu sumri og góða dóma meðal bókmenntagagnrýnenda, sem sögðu m.a:
Þetta er besta efni sem ég hef séð um langa hríð. Björn er lágstemmdur, tilgerðarlaus, málsnjall og hugmyndaríkur; kann að nota íslenskt mál.
-Úlfar Þormóðsson, rithöfundur
Björn Halldórsson stimplar sig hér inn með afgerandi hætti og haldi hann áfram á þessari braut geta lesendur hugsað sér gott til glóðarinnar.
-Magnús Guðmundsson, Fréttablaðið
Það er ánægjulegt að sjá íslensk úthverfi nútímans lifna við í klassísku smásagnaformi og það er hiklaust mikill fengur að þessari bók Björns Halldórssonar.
-Ágúst Borgþór Sverrisson, DV
Björn sprettur fram sem mjög fær höfundur í þessari bók.
-Sigurður Valgeirsson, Kiljan
Það er svo margt undir yfirborðinu. Þetta virðist vera frekar kyrrt en svo koma svona lítil atvik og maður allt í einu hrekkur við og hugsar: Hvað er ég að lesa!?
-Kolbrún Bergþórs, Kiljan
Smáglæpir hlutu nýræktarstyrk Miðstöðvar íslenskra bókmennta árið 2016, og smásögur Björns hafa birst í hinum ýmsu bókmenntatímaritum, heima og erlendis.