-5.5 C
Selfoss

Án kvenna er ekkert líf

Vinsælast

Leikfélag Selfoss frumsýndi 3. nóvember síðastliðinn leikverkið Vertu svona kona í leikstjórn Guðfinnu Gunnarsdóttur. Um er að ræða verk sem segja má að verði til og þróist jafnóðum og það er æft. Það er sett saman úr hugmynd leikstjórans sem segir, í leikskrá sýningarinnar, að hafi verið á sveimi í höfðinu á henni í fjölmörg ár. Guðfinna leggur síðan þessa hugmynd fyrir stjórn leikfélagsins og fær til liðs við sig áhugasaman og skapandi hóp leikara, músíkanta, hönnuða og tæknimanna til að fullgera og framkvæma hugmyndina. Tónlistin er í höndum Kristjönu Stefánsdóttur, leikmynd er gerð af María Marko og lýsing af Benedikt Axelssyni. Segja má að hér sé um að ræða sköpunarferli sem kallast á ensku devised theatre þar sem sýningin er sameiginlegt verk hópsins þar sem allir þátttakendur geta lagt sitt að mörkum í mótun sýningarinnar.

Auk þessa má segja að hér sé um að ræða KVENNALEIKHÚS þar sem umfjöllunarefnið er konur og reynsluheimur þeirra, ofinn úr margbreytilegum þráðum lífssögu þeirra, harmsögu og gleðisögu, sköpunarsögu, þróunarsögu, hegðunarsögu, kúgunarsögu og ævisögu, réttindabaráttu, sjálfskoðun, ólíkum æviskeiðum, tilfinningum, reiði og ást svo nokkuð sé nefnt. Helsta niðurstaða þessa verks er að ekkert hefur getað orðið til án þátttöku kvenna því þótt karlar hafi í ljósi sögunnar og í gegnum rás tímans gert konur að þolendum eru þær í raun og veru gerendur alls sem er. Án kvenna er ekkert líf.

Leiktextinn kemur að minnsta kosti úr fjórum áttum og er settur saman eins og smáar sögur í bók sem hver um sig myndar heild. Burðarásinn kemur úr verki kanadísku skáldkonunnar Margretar Atwood (1939) Good Bones frá 1992 en aðrir textar eru skrifaðir af leikstjóranum Guðfinnu og leikhópnum auk þess sem áhrifamikill og einstaklega fyndinn texti (í ljósi tímans) er lesinn upp úr Leiðarvísi í ástarmálum fyrir ungar stúlkur frá árinu 1932.

Hér er á ferðinni áferðarfalleg og metnaðarfull sýning sem hvort tveggja í senn er listræn og pólitísk. Engin ein persóna eða atburður skarar þó fram úr því segja má að allar persónur verksins séu ein og sama konan (eða ein og sama kvenröddin). Þó er ekki hægt að neita því að sagan um litlu gulu hænuna situr ansi föst í minninu vegna túlkunar Sigríðar Hafsteinsdóttur á skúringarkonunni. Auk þess sem upphafsatriðið var tæknilega vel unnið og vitnar um góða leikstjórn og tæmingu. Rauður litur hjartans, eldsins, reiðinnar og ástarinnar er ríkjandi í búningum og leikmynd og kallast á við hvítan lit beinanna og svarta litinn í fatnaði karlanna. Innrömmuð flækja úr þráðum að baki sviðsins ýtir undir æðakerfi og tengsl sem vitna um hannyrðir og eru allt í senn kvenleg, óræð, myndræn, abstrakt og vísindaleg.

Þess má geta að lokum að sýningin markar upphaf 60 ára afmælisárs leikfélagsins sem stofnað var 9. janúar 1958. Sýningafjöldi er takmarkaður en átta sýningar verða á verkinu og er lokasýning þann 17. nóvember. Hvet ég því alla sem vettlingi og visku geta valdið að drífa sig að sjá Vertu svona kona í uppsetningu Leikfélags Selfoss.

Jón Özur Snorrason

Nýjar fréttir