Fyrir skömmu komu í heimsókn í Grunnskólann á Hellu sjö ungmenni frá Úkraínu ásamt sr. Evgeny á vegum verkefnisins „Jól í skókassa“. Grunnskólinn á Hellu hefur tekið þátt í verkefninu nær því frá upphafi eða í um 13 ár. Verkefnið byggir á því að börn á Íslandi gefa jólagjafir sem KFUM/K koma svo til skila til munaðarlausra eða illa stæðra barna í Úkraínu. Gestirnir kynntu verkefnið fyrir öllum nemendum skólans ásamt Þórhöllu Þráinsdóttur sem hefur séð um þetta frá upphafi. Í skólanum hefur Sigurlína Magnúsdóttir verið með sérstakt „skókassaval“ þar sem nemendur eldri bekkja hafa saumað og prjónað í kassana. Krakkarnir höfðu gaman af að fá gestina og spurðu ungmennin spjörunum úr um lífið í Úkraínu. Þórhalla mun taka á móti jólaskókössum dagana 9.–10. nóvember í skólanum.